Algjör sprenging í þrívíddarhreyfihönnun

Steinar Júlíusson hönnuður segir jafnvel nýgræðinga geta byrjað að skapa þrívíddarhreyfihönnun eftir að hafa náð tökum á ákveðinni grunnfærni. Hann segir frá nýju námskeiði sem hefst í næstu viku og því áhugaverðasta í þrívíddarhreyfihönnun í bransanum um þessar mundir.

Steinar Júlíusson
Steinar Júlíusson

Steinar Júlíusson kennir þrívíddarhreyfihönnun í After Effects og Cinema 4D. Á námskeiðinu munu þátttakendur læra að hanna einfaldar hreyfimyndir í þrívídd sem fanga athygli og nýtast í markaðsstarfi fyrirtækja eða fjölmiðlum.

Farið verður í undirstöðuatriði hönnunar á þrívíddarhreyfimyndum, nemendur fá leiðsögn í að leysa einföld verkefni og lagður góður grunnur í notkun á Cinema 4D lite forritinu en það er hluti af Adobe After effects hreyfimyndaforritinu. Steinar Júlíusson er reynslumikill og farsæll hreyfihönnuður. Hann hefur starfað fyrir H&M, Acne Stockholm, Unicef á Íslandi, Borgarleikhúsið og Absolut Vodka. Steinar hefur áður kennt við LHÍ og hinn virta Berghs School of Communication.

Hvers vegna er þrívíddarhreyfihönnun nauðsynleg í vopnabúrið?

„Hreyfihönnuðir í dag þurfa að geta unnið á nokkuð breiðu sviði og geta skilað verkefni á ýmsum miðlum. Að geta fléttað inn þrívídd í myndbönd getur aukið virði þess til muna.

“Hvernig er þróunin í þessari hönnun, hverjir nýta sér hana? Á hvaða vettvangi?

„Það hefur orðið stór og mikil þróun í þrívíddarhreyfihönnun undanfarinn ár. Áður voru þessi tól mjög sérhæfð og kröfðust langrar yfirsetu til að ná tökum á tækninni. Í dag eru þeir sem vinna að hugbúnaðinum fyrir þrívíddarhreyfihönnun sífellt að gera hann eins aðgengilegan og mögulegt er. Með því geta nýgræðingar byrjað að skapa þrívíddarhönnun eftir að hafa náð tökum á ákveðinni grunnfærni.“

Margir álykta fyrirfram að um sé að ræða flókið viðfangsefni, en er það endilega svo?

„Forrit eins og Cinema 4D, sem við munum kynnast á námskeiðinu hjá IÐUNNI, getur vaxið með manni. Það er hugsað bæði fyrir byrjendur sem og lengra komna. Það er nauðsynlegt að fá smá innsýn í hvernig dæmigert verklag er þegar unnið er með þrívíddarhönnun. Eftir það opnast heill heimur af tækifærum og möguleikum innan þrívíddar hönnunar.“

Getur þú nefnt dæmi um þrívíddarhreyfihönnun sem þér finnst flott og gefur innblástur? Af erlendum vettvangi? Íslenskum?

„Það hefur orðið algjör sprenging í þessum geira undanfarin ár. Eitt framleiðslufyrirtæki sem hægt er að nefna er Buck í New York. Þeir hafa verið leiðandi á þessu sviði og mjög færir t.d. í að blanda samann þrívíddarhreyfihönnun við hefbundna hreyfihönnun og unnið með öllum stærstu vörumerkjunum.

https://buck.co/

Brandenburg skapaði litríka og metnaðarfulla þrívíddarhreyfi auglýsingu fyrir Megaviku Domino’s fyrir ekki svo löngu síðan sem gleður augað og vekur jafnvel upp hungurtilfinningu.“

https://vimeo.com/414745115

„Hér er dæmi um auglýsingu sem Buck gerði fyrir fyrirtækið Mailchimp. Þarna er þrívíddar- og tvívíddar hreyfihönnun splæst saman á listilegan hátt. Áferðin og stíllinn minnir á svokallaða clay-mation tækni, þar sem notast er við raunveruleg módel og brúður, þekktasta dæmi um slíkt eru kvikmyndirnar um Wallace og Gromit. Í þessari auglýsingu hjá Mailchimp er einungis notast við tölvutækni.“

https://vimeo.com/498134203

Hverjir hafa gagn af námskeiðinu?

„Þetta verður sannkallaður könnunarleiðangur fyrir þá sem hafa litla sem enga reynslu af þrívíddarhreyfihönnun en heillast af henni og vilja svala forvitninni. Þetta námskeið gæti veitt nemendunum þau tæki og tól til að fetað fyrstu skrefin í heim þrívíddarhreyfihönnunar.“

Boðið verður upp á bæði staðnám í Vatnagörðum 20 og fjarnám í gegnum Teams. Nemendur fá sent ítarefni á meðan námskeiðinu stendur auk upptöku af streyminu eftir að þeir hafa lokið námskeiðinu og hafa aðgang að henni í 30 daga. Skráið ykkur hér. Eða hafið samband við kristjana@idan.is

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband