Nokkrir fjarstýrðir stjórnlokar í dreifikerfi vatnsveitu í Reykjavík
Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds forstöðumaður vatns og fráveitu hjá Veitum segir í nýjum fræðslupistli frá ástandi lagna í miðborginni og endingartíma þeirra og vatnsleka í byggingum Háskóla Íslands.
Um 75 mínútur tók að stöðva leka sem olli mikli tjóni í Háskóla Íslands fyrr á árinu. Lekinn uppgötvaðist í stjórnstöð vatns hjá Veitum þegar vart varð mikils þrýstingsfalls í dreifikerfi kalda vatnsins vestan Snorrabrautar. Lekinn var um 500l/s og það runnu því út um 2250 tonn af vatni. Lekinn var rakinn til framkvæmda á svæðinu og vatnslögnin sem brast er 60 ára gömul.
En hvernig er ástand lagna í miðborginni?
Algengt að lagnir endist í 70-100 ár „Ástand lagna í miðborginni er misjafnt. Þar eru bæði mjög gamlar lagnir, alveg nýjar og allt þar á milli. Unnið er að markvissri endurnýjun í miðborginni og er forgangsröðin ákveðin með tilliti til aldurs, bilanatíðni, afkastagetu, lagnaefnis, fjárfestingaráætlana Reykjavíkurborgar og annarra veitna. Endingartíminn fer fyrst og fremst eftir lagnaefni, aldri lagna og vinnubrögðum við lagningu þeirra. Endingartíminn er talinn í áratugum og algengt er að lagnirnar endist í 70-100 ár. Vatnslögnin í Suðurgötu var um 60 ára gömul en ákveðið var að endurnýja hana, og aðrar lagnir í götunni, í samfloti við framkvæmdir Reykjavíkurborgar sem felast í endurnýjun yfirborðs, þ.e. gangstétta og fleira. Við reynum að samnýta uppgröft með borginni þegar kostur er svo Veitur þurfi ekki að koma og raska nýlegu yfirborði nokkrum árum eftir að borgin endurnýjar það.“ Arndís nefnir að í svona endurnýjunarvinnu þurfi að huga vel að rekstraröryggi við núverandi kerfi, frágangi í kringum lagnir, söndun, skurðum og öryggi við framkvæmd.
Þurfti að loka með handafli
Upptök kaldavatnslekans voru í lokahúsi vatnveitu sunnan við aðalbyggingu Háskóla Íslands og eins og áður sagði var vatnsmagnið gríðarlegt og 75 mínútur tók að stöðva lekann. Margir veltu því fyrir sér hvort það væru ekki til staðar sjálfvirkir lokar sem loka fyrir verði snöggt þrýstifall og eða fjarstýrðir úr stjórnstöð. „Það eru rúmlega 34.000 lokar í dreifikerfi vatnsveitu í Reykjavík. Við erum með nokkra fjarstýrða stjórnloka en ekki á þessu svæði. Þegar mælar í stjórnstöð sýna mikið þrýstingsfall í vatnsveitunni fer ákveðið ferli af stað. Þar sem atburðurinn gerðist að nóttu til þurfti að vekja sérfræðing sem fann út líklegan lekastað, sem og það fólk sem þarf að fara á staðinn. Gera þarf lokunarplan, staðsetja jarðlokana, sem í þessu tilfelli eru á flötunum neðan við aðalbyggingu HÍ og grafa frá þeim í frosti og myrkri en búið var tyrfa yfir einn þeirra eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan og svo loka fyrir með handafli. Til samanburðar má nefna að kollegar okkar hjá veitum Oslóborgar lentu í stórum leka í síðustu viku og það tók 4 klst að loka fyrir hann,“ nefnir hún en lekinn í Osló var í síðustu viku og má lesa um hann hér.
Nú er áframhaldandi vinna framundan. „Þegar lekinn varð átti eftir að endurnýja um 100m kafla. Áætlað er að framkvæmdinni við Suðurgötu ljúki í vor. Hægt er að sjá framkvæmdir Veitna á framkvæmdasjá Veitna hér,“ segir Arndís.