Gerði tónlistarmyndband eftir námskeið hjá IÐUNNI

„Það var svo merkileg upplifun að læra eitthvað sem ég hafði enga trú á mér í og finna síðan að ég hefði þó nokkra færni eftir bara nokkra tíma!“ Segir Hólmfríður Hafliðadóttir sem sótti námskeið Steinars Júlíussonar í Hreyfihönnun á prent -og miðlunarsviði hjá IÐUNNI í vetur.

Eftir námskeiðið hjá Steinari nýtti Hólmfríður þekkinguna í að gera tónlistarmyndband við fyrsta útgefna lag systur sinnar Vigdísar. Lagið Segðu það bara sem Daði Freyr kallar algjöran „banger!” á Twitter og er strax komið á vinsældarlista Rásar 2. Hólmfríður er þrátt fyrir ungan aldur afar fjölhæf og sankar að sér þekkingu á fjölmörgum sviðum, sálfræði, tónlist, bókmenntafræði, leiklist og myndlist. Og nú hönnun.

Hófst handa eftir fyrsta tíma

„Vigdís systir mín var að fara gefa út sitt fyrsta lag með stúlknahljómsveitinni Flott og lagið fjallar um netsamskipti milli stelpu og stráka, samskiptamynstur sem flestir kannast við. Hún spurði hvort ég væri til í að gera textamyndband í netsamskiptastíl og ég, eftir einn tíma í After Effects hjá Steinari Júlíussyni og með greinilegt mikilmennskubrjálæði, sagði já.“

Sættust alltaf að lokum

„Við syngjum oft saman, Vigdís er sjúklega góð í að radda svo við höfum oft tekið lagið í fjölskylduboðum og sænskum lúsíuhátíðum. Við erum líka báðar í Improv Íslandi, hún í sýningarhópi og ég í æfingahópi og við spinnum stundum saman. Þetta er fyrsta alvöru samvinnuverkefnið okkar, það gat verið smá erfitt að aðskilja systrasambandið frá því faglega, en við sættumst alltaf að lokum."

Strax komið á vinsældarlista Rásar 2

„Laginu hefur verið tekið ótrúlega vel! Daði Freyr sagði að það væri banger, og Flott er strax komið á vinsældarlista Rásar 2. Þær eru síðan að fara gefa út annað lag núna í janúar sem mér finnst ekkert minna flott. Myndbandinu hefur líka verið tekið mjög vel. Það eru ekki eins margir búnir að sjá það, tölurnar eru ekkert í líkingu við hlustanirnar. Ég held líka að fólk átti sig ekki alveg á því hvað þetta er mikil vinna, sérstaklega fyrir einhvern sem var að gera þetta í fyrsta skipti, svo vinir og vandamenn mættu alveg hrósa mér meira, takk fyrir pent.

Fjarnámið hentaði vel

„Ég lærði náttúrulega ALLT af Steinari. Ég hafði aldrei unnið í Adobe forritum áður, svo ég kunni bókstaflega ekki neitt í grafískri hönnun hvað þá að hreyfa hana. Mig hafði samt lengi langað til að læra en átti ekki nógu góða tölvu fyrr en núna. Fyrir svona algjöran byrjenda eins og mig var svo gott að námskeiðið var tekið upp. Ef það þyrmdi yfir mig vegna allra nýju hugtakanna sem ég var að læra þá gat ég huggað mig við það að ég gæti horft aftur seinna. Sem ég og gerði og þá gat ég líka glósað almennilega. Það var svo merkileg upplifun að læra eitthvað sem ég hafði enga trú á mér í og finna síðan að ég hefði þó nokkra færni eftir bara nokkra tíma!“

Handleiðslan himnasending

„Það var algjör himnasending að þurfa ekki að klóra sig fram úr þessu sjálf heldur að fá góða handleiðslu. Ég hafði ekki hugmynd um að ég gæti þetta! Steinar hefur auðvitað líka reynslu úr bransanum svo ég lærði helling um undirbúning verkefna og hvernig ætti að setja sér og öðrum mörk sem hönnuður, það hjálpaði þegar Vigdís var með derring. Ég þakkaði Steinari ítrekað í huganum fyrir að hafa kennt mér að gera vel ígrundað storyboard og að flokka allt í möppur!“

Miðlun hugmynda

Hvað heillar þig í hönnun og myndbandagerð? „Miðlun hugmynda! Það er ótrúlega mikil vinna á bakvið grafík og hreyfimyndbönd, sem þýðir að það er mikil hugsun sem liggur að baki. Það að geta búið til eitthvað sem mörgum finnst gaman að sjá er líka heillandi, að búa til eitthvað fallegt og/eða áhugavert.“

Sankar að sér margskonar þekkingu

Hólmfríður nefnir að fjölbreytt þekking muni styðja verið feril hennar. Það er í anda þess sem spáð er um vinnumarkað næstu ára og þá þekkingu sem fjórða iðnbyltingin krefst af fólki sem vill halda velli. „Ég ætla í leiklistarnám. En þar sem ég veit að bransinn er erfiður þá hef ég reynt að sanka að mér margskonar þekkingu sem gæti hjálpað mér sem listakonu. Ég hef verið að skrifa, mála, syngja og núna fikta við grafíska hönnun og myndbönd.“

Framtíðin stútfull af sköpun

Hvað er á döfinni hjá þér?

„Ég er á fyrsta ári í bókmenntafræði en hef verið í prufum fyrir leiklistarskóla, sem er þolinmæðisvinna og stressandi en gaman. Ég ætla líka að vinna fyrir mömmu mína, hún er markþjálfi og hefur beðið mig um hanna ýmislegt fyrir sig. Smá erfitt að fyrsta myndbandið mitt heppnaðist svona vel því nú heldur hún að ég geti allt! Framtíðin er stútfull af allskonar sköpun.“

Næstu námskeið hjá Steinari Júlíussyni hjá IÐUNNI eru ætluð ljósmyndurum eða öðrum sem vilja þjálfun í að taka upp viðtöl og gera myndbönd og seinna í vetur er námskeið í þrívíddarhreyfihönnun. Námskeiðin henta bæði áhuga -og fagfólki sem vill efla þekkingu sína. Eins og Hólmfríður Hafliðadóttir sýnir og sannar er það áhuginn sem skilar árangri.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband