Að gera nám merkilegt
Efst á baugi menntamálum á OEB ráðstefnunni í Berlín
Þúsundir sérfræðinga frá öllum heimshornum komu saman á rafrænu menntaráðstefnunni OEB í Berlín í byrjun desember. Þema ráðstefnunnar sneri að tilgangi og merkingu náms; „Making learning meaning“ var yfirskriftin sem mætti snara í gamni yfir á íslensku: Að gera nám merkilegt!
Erindi ráðstefnunnar báru þess skýr merki að það er bylting fram undan í menntakerfinu. Í stjórnun þess og skipulagi, aðgengi nemenda, tækni og inntaki. Eflaust framþróun sem hefur verið í gerjun síðustu ár en er hraðað vegna áhrifa Covid-19.
Ígrundun mikilvæg
„Hverju á menntun að skila? Hvaða hlutverki gegnir hún í framtíðarsamfélagi okkar? Tækniframfarir nýtast ekki ef við rýnum ekki í innihaldið,“ sagði Rebecca Stromeyer, fundarstjóri ráðstefnunnar. „Við segjum að tæknin opni nýja, spennandi möguleika. En gömlu vandamálin eru enn til staðar og ég er ekki viss um að við skiljum raunverulega þýðingu þess þegar við tölum um að tæknin sé að bylta menntakerfinu.“ Vangaveltur Rebeccu vísa í það hvort við höfum raunverulega ígrundað hvert við stefnum. Hvað við viljum og hvort það sé raunhæft. Ígrundunin sé hins vegar afar mikilvæg, sérstaklega í ljósi þess hve hröð þróunin er. Nú sé tíminn til að hafa áhrif. „Nám er ekki einfaldlega leið að markmiði. Nám verður í auknum mæli markmið í sjálfu sér,“ lagði Rebecca áherslu á. Nám væri persónuleg reynsla og órjúfandi hluti mannlegrar tilveru.
Hildur Elín Vignir framkvæmdastjóri og starfsmenn IÐUNNAR fræðsluseturs sóttu ráðstefnuna til að fræðast um nýja möguleika og tækni sem styður við nám og þjálfun. „Ráðstefnan var vissulega með öðrum hætti þetta árið. Efnið skilaði sér hins vegar vel og hvatti jafnvel til meiri þátttöku áhorfenda en fyrri ár, “ segir Hildur um OEB ráðstefnuna í ár.
Í desember birtum við fáeina fróðlega pistla hér á vef IÐUNNAR um innihald ráðstefnunnar sem snúa að þeirri hröðu þróun sem er fram undan í menntamálum víðs vegar um heim. Til að mynda hvað varðar þjálfun stjórnenda, gervigreind og þróun í mati á námi.