Næringarfræðin og margvíslegar áskoranir í eldhúsi LSH

Friða Rún Þórðardóttir er mörgum kunnug fyrir að vera afrekskona í hlaupum. Hún er næringarfræðingur á Landspítalanum þar sem hún segir matreiðslumenn hafa áhrif á matseðla og innihald en þeir þurfi að elda eftir mjög nákvæmum uppskriftum.

Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur
Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur

Fríða Rún ætlaði sér að vera sjúkraþjálfari en var svo heppin að taka matvælatengt valfag í framhaldsskóla sem kveikti áhugann. Fríða Rún segir að þar hafi kennarinn hennar ráðið úrslitum. Hann hafi gert fagið svo skemmtilegt.

Starf næringarfræðings á LSH er fjölbreytt. Það felur m.a. í sér samskipti við sjúklinga og greiningu á bestu mögulegu leiðum í mataræði fyrir hvern og einn. Alltaf er reynt að vinna með einstaklingnum á hans forsendum. Í sumum tilfellum er ferlið tiltölulega auðvelt og felst í skráningu á fæði, en ferlið getur líka verið flókið og þá er góð upplýsingagjöf lykilatriði.

Fríða segir einstaklinga nálgast mat á mismunandi hátt. Eldra fólk er t.d. ekki vant að fylla diskana sína af mat en þá þarf að orkuþétta skammtinn með fitu og próteini. Fólki finnist yfir höfuð erfitt að tala um hvað það borði og það sé ekki eins sjálfsagt að leita sér aðstoðar hjá næringarfræðingi eins og það er að fara til tannlæknis.

Gæðakerfi byrgja er mjög mikilvægt fyrir stofnun eins og LSH. Við þurfum að vita nákvæmlega hvað er í matnum segir Fríða Rún og bætir við að hjá LSH séu öll innihaldsefni skráð niður. Smávægilegar breytingar á innihaldi kalli á endurskoðun á útreikningum og gildum í fæðunni. Smá breyting á saltmagni getur gert það að verkum að fæðan henti alls ekki fyrir stóran hóp sjúklinga.

Matreiðslumenn LSH hanna matseðla og setja saman innihald í samræmi við stranga ferla. Hver uppskrift er brotin niður þannig að nákvæmar upplýsingar eru til um innihaldsefni, næringargildi og ofnæmisvalda. Ef breytingar eru gerðar á uppskriftum er allt skráð niður og ástæðan tilgreind, segir Fríða Rún. Eldhús LSH býður upp á fjölbreytt úrval af sérfæði og markmiðið er að hver og einn fái mat sem hentar best hverju sinni. 

 

 

Hlustaðu á fleiri þætti af Augnablik í iðnaði á Spotify eða Soundcloud.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband