Ævintýri í Evrópu

Rúnar Pierre er 27 ára matreiðslumaður sem nýtur þess að ferðast til annarra landa, læra nýja hluti og vera hluti af samfélagi þeirra sem elska að matreiða. Hann hefur tekið þátt í fjölda keppna bæði innan lands og erlendis.

Rúnar Pierre
Rúnar Pierre

  Helen Gray þróunarstjóri IÐUNNAR fræðsluseturs ræddi við Rúnar Pierre á dögunum sem hefur farið í þrígang til Evrópu með stuðning Erasmus styrkja sem IÐAN veitir. Síðan 2006 hefur IÐAN hvatt og stutt iðnnema og nýsveina að fara á vit ævintýra í Evrópu. Rúnar Pierre er einn þeirra. Rúnar nam fræðin sín á þremur framúrskarandi veitingastöðum. Fyrst fór hann á Hótel D‘angleterre í Kaupmannahöfn. Síðan lá leiðin til Finnlands, á Michelin veitingastaðinn Olo í hjarta Helsinki. Sem nýsveinn fór hann aftur til Kaupmannahafnar en að þessu sinni á veitingastaðinn Relæ sem vinnur markvist að sjálfbærni og er komin í 56. sæti yfir bestu veitinga staði heims samkvæmt 50 best restaurants.

  „Metnaður í hráefnavali, nýtingu, matargerð og virðing skiptir máli þegar kemur að matreiðslu. Þetta eru atriði sem við hér á Íslandi gætum gert betur í. Maður þarf alltaf að vera endurskoða viðmiðin sín,“ segir Rúnar.

  Lærdómur í djúpu lauginni

  „Það var mikill lærdómur að vera nemi í öðru landi. Það var fylgst mjög vel með allt sem gert var. Mikil áhersla á grunn atriði. Ef maður stóð sig vel þá fékkst meiri ábyrgð og flóknari verkefni sem skilaði sér aukinni færni. Að fara einn erlendis og inn í fyrirtæki þar sem viðmiðin eru mjög há var mjög krefjandi. Maður var stundum í djúpu lauginni en þannig lærir maður.“

  Agi, skipulag, hraði og samvinna

  Ýmislegt stendur upp úr að sögn Rúnars. Hann nefndi sérstaklega nokkur mikilvæg atriði. Aginn hafi verið mikill, en ekki á neikvæðan hátt. „Allir voru á sömu vegferð og allir vissu hvað var ætlast til, enginn reyndi að komast auðveldlega frá hlutunum og það skipti engu máli í hvaða hlutverki fólk var í. Það var mikið skipulag á hlutunum og farið eftir því.“ Hann upplifði hraða en á sama tíma samvinnu. „Það brunnu allir fyrir að gera hlutina vel. Þegar allir eru saman fimm daga í viku frá morgni til kvölds og búa yfir sömu ástríðunni þá vinna allir saman og hjálpast að eins og fjölskylda.“

  Draumurinn

  Rúnar segir að ferðirnar hafi breytt sér algjörlega varðandi hvert hann stefndi sem fagmaður. Hann veit hver markmiðin sín eru og draumar. ,,Persónulegt líf mitt breyttist á þann veg að ég var tilbúinn að fórna meira af þeirri hlið til að geta komist lengra á ferlinum. Það besta sem hægt er að gera fyrir ferilinn er að velja ný viðmið. Því meira sem þú ferðast og því meira sem þú lærir, því meira áttar maður sig á því hvað maður veit lítið og hvað það er til endalaust af mismunandi eldunaraðferðum, aðferðarfræði og mismunandi skoðunum á hvað er rétt og hvað er rangt.“

  Eftir Helen Gray

  Frekari upplýsingar um styrki fást á vef IÐUNNAR

  Hafa samband

  Hafðu samband

  Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband