Aftur til fortíðar en í anda nútímans

Hönnun bygginga, sorphirða og breytt viðhorf til umhverfissmála voru á meðal umræðuefna á fyrsta fyrirlestri af þremur um sjálfbærni í byggingariðnaði.

„Við erum að fara aftur í grunninn,“ sagði Kjartan Long sölustjóri hjá Byko á fyrsta fyrirlestri af þremur í streymisfundaröð um sjálfbærni í byggingariðnaði. Hann nefndi til gamans að gömlu íslensku torfbæirnir hefðu nú sennilega allir fengið Svansvottun og það mætti læra margt af því að horfa á hönnun húsa fortíðar hvað varðar sjálfbærni. Hann tók þó fram að þótt við tækjum mið af fortíðinni gætum við hannað í anda nútímans.

„Við erum að skuldbinda okkur,“ sagði Berglind Ósk Ólafsdóttir verkefnisstjóri umhverfismála hjá Byko og sagði frá nýlegri viljayfirlýsingu sem BYKO skrifaði undir við Kópavogsbæ um að ná völdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þá lýsti hún samstarfi Byko og Skógræktarinnar sem hefur undanfarin misseri staðið að mælingu kolefnisbindingar á Drumboddstöðum þar sem BYKO hefur ræktað land síðan 1987. Þessar mælingar eru sýnilegur árangur kolefnisjöfnunar sem er svo hluti af kolefnisbókhaldi BYKO.

„Áður voru þetta einstakir verkstjórar sem voru áhugasamir um þessa hluti,“ sagði Bergur Helgason gæða- og öryggisstjóri hjá ÞG Verk um verklag í umhverfismálum í iðnaðinum og fór yfir góðan árangur fyrirtækisins í sorphirðu. Nú væri það allt fyrirtækið sem væri einbeitt í að ná árangri og umhverfismál hefðu tekið gríðarmiklum breytingum í þeirra verkskipulagi.

Upptöku af fundinum má skoða hér fyrir ofan og einnig er hægt að skrá sig á komandi fyrirlestra sem verða dagana 19. nóvember en þá ætla Finnur Sveinsson og Gísli Sigmundsson að lýsa fyrirkomulagi á byggingu fyrsta Svansvottaða íbúðarhússins. Þriðji fyrirlesturinn verður svo í umsjá Árna Stefánssonar forstjóra Húsasmiðjunnar og Björmu Magnúsdóttur verkefnastjóra ÍAV þann 10. desember.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband