Ný hugsun í byggingariðnaði

Byggingariðnaðurinn ber ábyrgð á ansi stórum hluta mengunar í heiminum og þá eru auðlindir að tæmast. Hvað er til ráða? Er sjálfbærni í byggingariðnaði lausnin? Ásgeir Valur Einarsson nýr verkefnastjóri á byggingarsviði fer yfir sjálfbærni í byggingariðnaði.

„Svo eru hlutir eins og arkítektúrinn, er eitthvað fyrir augað til þess að njóta innan sem utan byggingarinnar?“ Þessi mynd er tekin af nýrri byggingu í Vatnsmýrinni, Grósku. Mynd/Haraldur
„Svo eru hlutir eins og arkítektúrinn, er eitthvað fyrir augað til þess að njóta innan sem utan byggingarinnar?“ Þessi mynd er tekin af nýrri byggingu í Vatnsmýrinni, Grósku. Mynd/Haraldur

    Sjálfbærni (e. sustainability) er mjög stórt hugtak en í grunninn er það hringrás sem þarfnast lítils viðhalds. Auðlindir eða kerfi sem ganga á eigin orku eða skipulagi og renna aldrei út. Sjálfbærni á einnig við þegar talað er um að lifa í sátt og samlyndi, efla þarfir manna, bæði núverandi og til framtíðar. Hugtakinu sjálfbærni er yfirleitt skipt niður í þrjá meginflokka sem eru; umhverfisleg, efnahagsleg og félagsleg sjálfbærni og ef viðfangsefnið uppfyllir kröfur jafnt innan allra þriggja flokkana telst það sjálfbært.

    Auðlindir jarðar að tæmast

    Byggingariðnaðurinn í heild sinni er eitt af stærstu vandamálum heimsins þegar kemur að mengun og setur stórt strik í reikninginn þegar kemur að umhverfislegri sjálfbærni. Framleiðsla á hinum ýmsu byggingavörum eiga þátt í gífurlegri mengun jarðar og margar auðlindir sem notaðar eru í þessum geira eru að klárast eða eru nú þegar tæmdar. Málmar eru þar í sérstökum áhættuflokki en talað er um að ef mannkynið breytir ekki neysluháttum sínum á kopar, séu aðeins 38 ár eftir af notkun kopars á jörðinni. Zink sem er einnig mikið notað í byggingariðnaði mun aðeins duga okkur í 34 ár til viðbótar. Hvað ef þessi efni klárast? Eina svarið í rauninni er endurvinnsla sem hefur verið ábótavant þegar kemur að málmum.

    85% græn orka á Íslandi

    40% af allri kolefnamengun jarðarinnar má rekja til byggingariðnaðarins á einn eða annan hátt. Þar má nefna m.a. framsleiðslu efna, notkun vinnuvéla og orkunotkun bygginga. Hvað framleiðslu efna varðar, er sement framleiðsla til að mynda ábyrg fyrir 4-8% af heildar kolefnamengun jarðar. Notkun vinnuvéla eða sú mengun sem myndast af bensín eða díselvélum er eins og flestir vita stærsta vandamálið þegar kemur að hlýnun jarðar. Orkunotkun bygginga er ekki síðra vandamál því það eru alls ekki allir svo heppnir eins og við hér á Íslandi þar sem nánast öll okkar orka, eða um 85%, er græn orka.

    Félagsleg sjálfbærni vanmetin

    Félagsleg sjálfbærni á það til að gleymast en er þó ekki síður mikilvæg því hún snýr að okkur sem manneskjum. Hvernig líður okkur í tiltekinni byggingu? Eru aðstæður nægilega góðar til þess að eyða tíma þar inni? Fyrst og fremst er horft í öryggi og heilsu í þessum flokki. Þá er fyrst litið til brunaöryggis, aðgengi til og frá byggingunni og hvort hún henti öllum, fötluðum jafnt sem öldruðum. Hvað heilsuna varðar er þá litið til dagsbirtuskilyrða innandyra, súrefnisgæða og varmaflæðis. Einnig er mikilvægt að hljóðvist sé í lagi því léleg hljóðvist leiðir til þreytu og getur verið átakanleg til lengri tíma. Svo eru hlutir eins og arkítektúrinn, er eitthvað fyrir augað til þess að njóta innan sem utan byggingarinnar? Er gott aðgengi fyrir alla hópa? Er hægt að koma hjólandi, eru til dæmis sturtur í byggingunni sem hægt væri að nýta ef fólk kæmi hjólandi? Og svo er það síðast en ekki síst, samfélagsleg ábyrgð. Það væri til dæmis ekki félagslega sjálfbært ef byggt yrði álver inní míðjum bæ eða skemmtistaður í miðju heimilishverfi. Allt eru þetta kannski þættir sem okkur finnst vera sjálfsagðir en samt sem áður þarf að hugsa um þessa hluti, útfæra þá og skipuleggja. Og það sem meira er, gera betur en síðast. Læra af reynslunni.

    Líftímakönnun bygginga

    Fjárhagsleg sjálfbærni er kannski ekki endilega stórt vandamál þegar kemur að byggingariðnaði. Það er að sjálfsögðu ákvörðun og frjálslyndi hvers og eins hversu miklu hann eða hún eyðir í sína eigin byggingu. Yfirvöld þurfa þó að gæta hagsmuna þegar kemur að því að byggja opinberar byggingar sem þegnar landsins greiða fyrir. Hjá hinum almenna borgara eða fyrirtæki eru þá kannski einna helst þættir eins og að velja endingargott efni. Einnig er oft framkvæmd svokölluð LCC (life cycle costing) könnun eða líftímakönnun sem er svo notuð til að lágmarka kostnað byggingarinnar og viðhaldskostnað á líftíma hennar. Hönnun byggingarinnar getur einnig átt stóran þátt í fjárhagslegri sjálfbærni hennar en þá er átt við til dæmis að leita leiða til þess að lágmarka kostnað á þeim hlutum húsnæðisins sem er hve minnst notað, eins og t.d. gangar eða ræstiklefar og svo framvegis.

    Þarf að byggja?

    Eins og gefur að skilja er ekki einungis talað um mengun, bruðl á fjármunum eða félagslegt vægi á byggingastigi heldur einnig yfir allan líftíma byggingarinnar og förgun. Því er það ekki alveg svo einfalt að byggja sjálfbæra byggingu, ferillinn frá hugmyndinni að byggja hús, framleiðsla efnisins, líftími hússins og alveg þangað til það hefur verið rifið niður í síðustu skrúfu þarf að vera sjálfbært. Byggingarefni sem geta sýnt fram á svokölluð EPD (Environmental Product Declaration) gögn eru talin sjálfbær og eru nánast einungis notuð við byggingu á vistvottuðum húsum. Þessi byggingarefni hafa þá verið tekin út og greind í þaula sem er svo tekið saman í skýrslu þar sem kemur nákvæmlega fram hversu mikil áhrif það hafði á umhverfið allt frá byrjun framleiðsu til innpakkaðar vöru. Í þessu útektarferli er notuð aðferðarfræði sem kallast LCA (Life-cycle assessment) þar sem varan er greind frá „vöggu til grafar”. Í sjálfbærnis markmiðunum 17 á vegum sameinuðu þjóðanna er sett skýr skilaboð til þeirra sem ætla að reisa hús og til að stuðla að sjálfbærum byggingariðnaði er talað um þrjár síur sem er gott að fara í gegn um og þær eru:

    • Þarf virkilega að byggja húsið?
    • Ef svo, er hægt að hafa það minna en gengur og gerist?
    • Er hægt að nýta hús sem er til nú þegar fyrir starfsemina?

    Allt umfram þessar síur á þá að nota sjálfbær efni, vistvottun og vistvænar aðferðir svo síðast en ekki síst, beita kolefnisjöfnun. Kolefnisjöfnun er í stuttu máli að ef þú heggur niður tré, gróðursetur þú eitt eða fleiri í staðinn. Þetta á við um öll efni og auðlindir þar sem kolefnum er hleypt út í andrúmsloftið, þá þarf að spara í öðrum aðgerðum annarsstaðar eða jafnvel framkvæma neikvæða kolefnismengun til þess að jafna út þann skaða sem var gerður.

    BYKO með grænan vegvísi

    Svona til að gera okkur Íslendingum auðveldara fyrir þá hefur BYKO gefið út vöruskrá með öllum þeim byggingarefnum sem hægt er að nota við byggingu húss sem gæti uppfyllt svanavottunina. Annars er hægt að skoða inná www.environdec.com flest allar þær vörur sem bera með sér EPD skýrslur og eru því tilvaldar til notkunar í visthúsum. Vefur Grænna Byggðar er einnig fullur af ýmsum gagnlegum upplýsingum ásamt vefsíðu Svansins.

    Með von um vistvænni framtíð. Ásgeir Valur Einarsson
    Verkefnastjóri á bygginga- og mannvirkjasviði IÐUNNAR.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband