Þetta er námskeið fyrir fagmenn í byggingariðnaði sem starfa við frágang veggja, lofta, gólfa og annarra byggingarhluta. Markmið þess er að kenna þátttakendum réttan frágang og grundvallaratriði varðandi hljóðvist. Fjallað er um hljóðeinangrun, hljóðhöggeinangrun, hljóðísog, ómtíma og önnur atriði sem snerta hljóðvist. Farið er yfir frágang og notkun byggingarefna sem henta hverju tilfelli fyrir sig.
Þetta námskeið er fyrir þá sem vilja læra að nota rennibekk við trésmíðar. Markmið þess er að kenna þátttakendum meðferð efnis og véla í vinnu við trérennismíði. Farið er í undirstöðuatriði varðandi notkun rennibekkja og verklegar æfingar. Námskeiðið er haldið í samvinnu við Félag trérennismiða.
Þetta námskeið er fyrir þá sem vilja læra að nota keðjusagir við trjáfellingar. Farið er yfir fellingartækni, öryggisatriði við fellingu trjáa og líkamsbeitingu ásamt leyfum og öryggissjónarmiðum varðandi fellingu trjáa í þéttbýli. Einnig verður fjallað um val á trjám til fellinga og komið inná grisjun skóglenda, trjáþyrpinga og garða. Einnig innviðum keðjusagarinnar og komið inn á hvernig framkvæma eigi einfalda bilanaleit í söginni, ásamt því að læra hefðbundið viðhald, þrif sagar og brýningu keðju. Ennfremur verður unnið í trjáfellingum og grisjun í skógi, þar sem lögð verður áhersla á rétta fellingartækni og uppröðun viðarins.
Þetta námskeið er á einsku og er fyrir þá sem þurfa að nota vinnuvélar og veitir bókleg réttindi á lyftara með 10 tonna lyftigetu og minna, dráttarvélar með tækjabúnaði og minni gerðir jarðvinnuvéla (4 tonn og undir), körfukrana, steypudælur, valtara, útlagningarvélar fyrir bundið slitlag og hleðslukrana á ökutækjum með allt að 18 tonna lyftigetu.
Námskeiðið er ætlað starfsmönnum fyrirtækja í byggingariðnaði sem þurfa að gera áhættugreiningar fyrir störf sem unnin eru innan fyrirtækisins. Markmið námskeiðsins er að gera þátttakendur færa um að gera nýjar áhættugreiningar fyrir störf í bygginga- og mannvirkjagerð hvort sem um er að ræða störf á byggingarstað eða annars staðar. Farið verður yfir kröfur til fyrirtækja um gerð áhættugreininga og verkferla við gerð þeirra. Þátttakendur fá í hendur form til að gera áhættugreiningar og koma út af námskeiðinu með fullbúnar áhættugreiningar sem nýtast þeim við rekstur öryggismála við verklegar framkvæmdir.
Námskeið fyrir aðila sem hyggjast starfa við eða sækja um starfsleyfi sem þjónustuaðilar fyrir handslökkvitæki, reykköfunarbúnað og loftgæðamælingar hjá HMS í samræmi við reglugerð nr. 1067/2011 um þjónustuaðila brunavarna. Farið er yfir lög, reglugerðir og staðla, skráningu í gæðahandbók, viðhald slökkvitækja, slökkviefni- gerð og virkni, úttektir á þjónustustöðvum og fl. Námskeiðið er samþykkt af HMS og endar á skriflegu prófi.
Þetta námskeið er fyrir alla sem þurfa að þétta steinsteypu. Arcan Gmbh hefur um árabil boðið inndælingarefni í sprungur og óþétt svæði sem og yfirborðsefni á gólf og þök sem unnin eru úr umhverfisvænum og náttúrulegum hráefnum. Þau innihalda ekki efni sem eru skaðleg náttúrunni við urðun, innihalda ekki leysiefni, eru lyktarlítil og innihalda ekki þekkt ofnæmisvaldandi efni eins og mörg PU eða epoxy efni gera. Í þessum 1 klst yfirferð mun Michaella Muller frá Arcan kynna PUR resin, yfirborðsefni og hreinsiefni sem búin eru til úr umhverfisvænni efnum sem eru betri fyrir umhverfið og heilsuna en á sama tíma hafa betri virkni og lengri endingartíma. Sum efnin má hreinsa með vatni og sápu af verkfærum og flötum og ný NT lína í Epoxy efnum sem innihalda ekki sterka ofnæmisvalda eða eituefni sem skaða umhverfi og heilsu.
Þetta námskeið er ætlað verktökum sem á einn eða annan hátt koma að undirbúningi og framkvæmd vega- og gatnagerðarmannvirkja. Markmið þess er að kenna nemendum hönnun og útfærslu á merkingu fyrir almenna umferð í dreifbýli og þéttbýli vegna framkvæmda, þannig að merkingar þessar séu samræmdar, bæði gagnvart starfsmönnum á vinnustað og vegfarendum. Á námskeiðinu verður m.a. farið yfir lög og reglugerðir, flokkun vega og gatna, umferðarmerki, flokkun tegundir og umferðarstjórn. Einnig umgengnisreglur, framkvæmd, ábyrgð og eftirlit og rammareglur um merkingar vinnusvæðis/framkvæmdasvæðis. Ennfremur um varnar- og merkingarbúnað, ljósabúnað, merkjavagna, vinnutæki og öryggisbúnað. Í lok námskeiðs þreyta þátttakendur próf til réttinda.
Þetta námskeið er fyrir húsasmiði sem vilja læra rétta meðferð á álgluggum, ísetningu og viðhald. Á námskeiðinu er fjallað um framleiðslu og eiginleika álgugga og atriði sem hafa ber í huga við val á gluggum. Einnig er fjallað um ísetningu álglugga og glers og frágang í húsum við íslenskar aðstæður. Ennfremur er fjallað um viðhald álglugga.
Þetta námskeið er fyrir iðnmeistara og byggingastjóra sem þurfa að tengjast rafrænni byggingargátt Mannvirkjastofnunar. Tilgangur þess er að kenna þátttakendum notkun gáttarinnar. Í rafrænu byggingargáttinni verða vistuð öll gögn vegna mannvirkja, allt frá umsókn um byggingarleyfi til lokaúttektar. Þar verða vistaðar umsóknir og útgefin byggingarleyfi, öll gögn sem leyfin byggjast á, hönnunargögn, teikningar og skoðunarskýrslur. Þar verður að finna lista yfir löggilta hönnuði og iðnmeistara og byggingarstjóra með starfsleyfi ásamt reglum um gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra, hönnuða og iðnmeistara. Þar verða ennfremur skoðunarhandbækur og verklagsreglur faggiltra skoðunarstofa. Þátttakendur þurfa að taka með sér: 1. Rafræn skilríki eða Íslykil 2. Snjalltæki með Android stýrikerfi og uppsettu gmail-netfangi. Námskeiðið er haldið í samvinnu við Mannvirkjastofnun.
Þetta námskeið fjallar um skyldur og verkefni eldvarnarfulltrúa. Eldvarnarfulltrúi annast daglegar skyldur eiganda er varða brunavarnir bygginga. Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma. Farið verður yfir lög og reglugerðir er varða viðfangsefnið. Það eru margir aðilar sem koma að brunavörnum bygginga, bæði innan og utan fyrirtækja, farið verður yfir hlutverk hvers aðila og hvernig þessir aðilar tengjast eldvarnarfulltrúanum. Eitt af því sem farið verður yfir er gerð þjónustusamninga og verkefni viðurkenndra þjónustuaðila. Kynnt verður mikilvægi viðbragðsáætlana og hvernig skrásetningu brunavarna er almennt háttað auk þess sem farið verður yfir mikilvægi samþykktra aðaluppdrátta.
IÐAN fræðslusetur í samstarfi við Grænni Byggð stendur fyrir morgunfyrirlestri þar sem fremstu fyrirtæki í byggingariðnaði á Íslandi fræða okkur hvernig hægt sé að gera betur þegar kemur að sjálfbærni. Fyrirlesturinn verður sendur út í streymi en skráningar er krafist.
Þetta námskeið er fyrir iðnmeistara, starfsmenn byggingarfyrirtækja og aðra sem vinna með gæðakerfi í byggingariðnaði. Markmið þess er að kenna þátttakendum notkun helstu möguleika sem felast í Office 365 með tengingu við SharePoint og flýtileiðir í Windows 10. Skoðað hvað er í boði með Office 365, hvað er Share Point og möguleikar gæðakerfa í því. Einnig flýtileiðir og aðgerðir í Wondows 10 og annað sem kemur að góðum notum í vinnu við stjórnun og gæðakerfi.
Á þessu hnitmiðaða vefnámskeiði fer Guðni Jónsson byggingaverkfærðingur yfir mikilvæga þætti í meðferð steypu.
Opnunartímar: mánudagar-fimmtudagar 9:00 - 16:00 | föstudagar 9:00 - 14.00