Upplýsingatækni í mannvirkjagerð - nýtt nám
Ingibjörg Kjartansdóttir starfar sem þróunarstjóri BIM hjá Ístak og segir okkur allt um nýja námsleið í byggingargreinum við Háskólann í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík býður nú í haust upp á nýtt diplómanám fyrir fagfólk í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, s.s. byggingarstjóra, byggingariðnfræðinga, tæknifræðinga og fleiri. Námið er 30 ECTS einingar og er kennt á tveimur önnum. Það er sérstaklega hugsað fyrir alla sem hafa hug á því að stunda nám með vinnu.
Í náminu kynnast nemendur m.a. BIM (building imformation modeling) aðferðafræðinni sem byggir á tölvugerðum þrívíddarlíkönum og gagnagrunnum um mannvirki og framkvæmdir. BIM er töluvert notað á Íslandi og gerir framkvæmdasýslan t.a.m. kröfur um að öll ný verkefni séu hönnuð í BIM. Sífellt fleiri verkefni og þá sérstaklega stærri verkefni nýta BIM að einhverju marki.
Ingibjörg segir fjölmörg tækifæri í samspili upplýsingatækninnar og mannvirkjagerð. Í mörgum tilfellum er tæknin til staðar en innleiðingin erfið og tímafrek. Staðreyndin er sú að ný tækni kallar oft á miklar umbreytingar á ferlum og hugarfari og geta fyrstu skrefin reynst erfið. Námið er ekki síst hugsað fyrir alla þá sem vilja efla sig á þessu sviði.
Þú getur hlustað á Augnablik í iðnaði á Soundcloud eða Spotify