Hápunktar Slush í Finnlandi 2022: Grænn iðnaður áberandi

Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs og Kristjana Guðbrandsdóttir, leiðtogi prent- og miðlunargreina, sóttu nýverið SLUSH í Finnlandi, stærstu nýsköpunarráðstefnu Norðurlanda. Nýsköpun er ein af meginstoðum nýrrar stefnu Iðunnar fræðsluseturs.

    SLUSH nýsköpunarráðstefnan fór fram 16.-18.nóvember í Finnlandi í Messukeskus ráðstefnuhúsinu í Pasila, sem er rétt utan við Helsinki.

    Yfirskrift ráðstefnunnar var fjölbreytileiki og markvissar breytingar til góðs en mörgum fyrirlesurum ráðstefnunnar varð á orði að nýsköpun næstu ára þurfi í enn meira mæli en áður að tækla loftlagsbreytingar og breytta samfélagsgerð heimsins.

     

    Nýsköpun þrædd í starfsemi Iðunnar

    Nýsköpun er ein af meginstoðum í nýrri stefnu Iðunnar fræðsluseturs og við höfum einsett okkur að þræða nýsköpun í starfsemi okkar, fræðslu og þjónustu. Þátttaka Iðunnar fræðsluseturs í ráðstefnunni er hluti af því að efla félagsmenn okkar í þeirri vegferð sem bæði atvinnulíf og iðnaður þarf að taka þátt í til þess að leysa áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og verða ekki leystar nema með nýjum leiðum.

    Í fjölbreytileikanum verður fleira til

    65 íslensk fyrirtæki voru stödd á SLUSH í ár og hafa aldrei verið fleiri, þá tóku um 110 Íslendingar þátt með ýmsum hætti. Gestir hvaðanæva úr heiminum voru um 12 þúsund. Á ráðstefnunni voru helst sprotafyrirtæki, stærri nýsköpunar- og tæknifyrirtæki, stofnanir sem styðja við nýsköpun, menntastofnanir, háskólar og fulltrúar stjórnvalda ýmissa ríkja.

    Á ráðstefnunni í ár voru nýjar lausnir í grænum iðnaði áberandi. Það var ánægjulegt að sjá sprotafyritæki í bíl -og samgöngugreinum vinna að nýjum lausnum í flutningi á pósti, rusli og veitingum.

    Í prent- og miðlunargreinum og matvælagreinum mætti telja til nýjar lausnir í umbúðaframleiðslu þar sem er hugað að matvælaöryggi og heilnæmi en líka framleiðsluháttum og útreikningi á kolefnisspori umbúða. Þá voru eins og áður áberandi ýmis ný forrit til einföldunar á hönnunarvinnu, til dæmis í teiknimyndsögu -og/eða handritagerð.

    Nýjar leiðir í matreiðslu veganrétta voru kynntar og gestir fengu að smakka ný eggjahvítuhráefni. Frá Íslandi kynntu matvælafyrirtæki á tilraunastigi sínar hugmyndir fyrir fjárfestum með áherslu á líftækni. Það er áhugavert að skynja mikilvægi tengingar ólíkra iðngreina í nýsköpun og samstarf vísinda og iðnaðar í nýsköpun. Í fjölbreytileikanum verður fleira til!

    Nýsköpun er fjölbreytt

    Í byggingar- og mannvirkjagreinum var mjög áberandi meginstraumur ;sjálfbær nýting auðlinda og lausnir fyrir fyrirtæki til að skapa nýja ferla og mæla á skilvirkan hátt kolefnisspor framkvæmda.

    Þá var líka lögð áhersla á snjallar lausnir sem auka lífsgæði okkar, gott dæmi um slíka lausn er íslenska nýsköpunarfyrirtækið Treble Technologies sem hefur þróað hugbúnað til hljóðhönnunar og er í samstarfi við mörg af fremstu fyrirtækjum hiemsí byggingar- og bílaiðnaði. Iðan fræðslusetur tók einmitt Finn Pind, stofnanda og forstjóra fyrirtækisins tali á árinu og kynnti sér þessa lausn.

    Áherslur nýsköpunar í fræðslustarfi Iðunnar verða meira áberandi á nýju ári. Það er mikilvægt að átta sig á mikilvægi þess að efla nýsköpun í iðnaði og láta ekki villa um fyrir sér sterkar áherslur á hátækni þegar talað er um nýsköpun. Nýsköpun er fjölbreytt og snýst í grunninn um að leysa vandamál og áskoranir sem blasa við. Bransadagar 2023 verða helgaðir nýsköpun og þar verður mörgum þeirra fyrirtækja sem kynntu starfsemi sínar og hugmyndir á SLUSH gerð skil.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband