Umbrotið nátengt myndlistinni

Jón Óskar hafði mikil áhrif á umbrot dag- og vikublaða á níunda og tíunda áratugnum. Grímur Kolbeinsson ræðir við listamanninn um ferilinn í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði.

„Maður fer ekki inn á blað sem er eins og stofnun og rífur niður eins og Jesú í musterinu forðum,“ segir listamaðurinn Jón Óskar glettinn þegar hann rifjar upp gamla og gróskumikla tíma í íslenskum fjölmiðlum. Jón Óskar sinnti árum saman útlitshönnun fyrir dagblöð, vikurit, bækur og síðar margmiðlunarfyrirtæki en hann stofnaði hið farsæla fyrirtæki Gagarín sem bróðir hans rekur í dag. Jón Óskar segist hafa rambað í nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar fann hann þó fljótt sína fjöl og með náminu fór hann fljótt að vinna við umbrot dagblaða. Hann starfaði á Vísi og á Helgarpóstnum (fyrri).

Lífleg sena í New York kveikti neista

Jón Óskar flutti til New York þar sem hann stundaði myndlistarnám við hinn virta School of Visual Arts. Í New York var lífleg hönnunar- og listasena og Jón Óskar hreifst að skemmtilegu umbroti blaða á borð við Soho News sem varð reyndar ekki langlíft og Village Voice. Hann kom heim og hannaði seinni Helgarpóstinn sem var undir ritstjórn Halldórs Halldórssonar og Ingólfs Margeirssonar. Hann var líklega undir sterkum áhrifum Village Voice þegar hann hannaði blaðið, stækkaði myndir og fyrirsagnir og eins og hann segir sjálfur þá reif hann ekki niður nein musteri. „Maður gat leyft sér þetta með Helgarpóstinn.“

Heimur fjölmiðla skemmtilegur

Þá kom hann að skemmtilegu umbroti Mannlífs sem þá var í ritstjórn Herdísar Þorgeirsdóttur. „Hún hafði mikinn metnað og í blaðinu var ekki bara fjallað um tísku og tekin viðtöl heldur gerðar góðar stjórnmálaskýringar.“ Jón Óskar kom síðan að Pressunni, Eintaki og Alþýðublaðinu sem var undir ritstjórn Hrafns Jökulssonar heitins. Hann segist hafa notið þess að starfa með listinni í heimi fjölmiðla með skemmtilegu og hugmyndaríku fólki. „Alþýðublaðið var gríðarlega skemmtilegt blað á þessum tíma, það var með svo öfluga ritstjórn. Jakob Bjarnar, Egil Helgason, Kolbrúnu Bergþórsdóttur og svo kom Gunnar Smári að blaðinu líka.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband