Nýtt íslenskt fyrirtæki sem býður upp á lausnir í hljóðvist

Treble er fyrirtæki sem býður bæði upp á lausnir til að bæta hljóðvist í byggingum og betri upplifun fyrir þá sem nota heyrnartæki og fundahátalara. IÐAN kíkti á vettvang og fékk að prófa.

    Finnur Pind, forstjóri og einn af stofnendum fyrirtækisins Treble, hefur unnið hörðum höndum að því að bæta hljóðvist. Til mikils sé að vinnna því mikill umhverfishávaði geti haft skaðleg áhrif á fólk til lengri tíma. Vitað sé að umhverfishávaði hafi slæm áhrif á líf milljóna Evrópubúa á ári hverju. Fólk sem býr nálægt hraðbrautum sé til dæmis líklegra til að fá Alzheimer eða álíka sjúkdóma. Reykjavíkurborg gaf nýverið út skýrslu þar sem skoðaðar voru aðstæður í skólum í borginni og var hljóðvist sérstaklega ábótavant.

    Með Treble má upplifa hljóðvist í gegnum sýndarveruleika og grípa inn í á byggingarstigi. Forritið kemur með tillögur að því hvernig megi bæta hljóðeinangrun og ómtíma í rými sem hægt er að upplifa í rauntíma með sýndarveruleika og heyrnatólum, eins og maður sé staddur á staðnum, jafnvel í byggingu sem hefur ekki verið reist. Lausnina er einnig hægt að nota í byggingum sem þegar hafa verið reistar til að bæta hljóðvist.

    Framtíð Treble virðist björt en þeir eru einnig í samstarfi við stóra framleiðendur sem framleiða fundahátalara og heyrnartæki. „Við finnum fyrir miklum áhuga á því sem við erum að gera, fyrirtæki virðast hafa not fyrir þessar lausnir svo það er mjög gaman þessa dagana, smá meðvindur,” segir Finnur Pind.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband