Stærsta byltingin er hljóðbókin en prentaða bókin heldur velli

„Ég held að á Norðurlöndum sé hlustun á bækur orðinn þriðjungur af lestri á almennum markaði,“ segir Halldór Guðmundsson rithöfundur, bókmenntafræðingur og fyrrverandi útgefandi til fjöldamargra ára.

Halldór Guðmundsson
Halldór Guðmundsson

Grímur Kolbeinsson ræðir við Halldór í nýjasta þætti Augnabliks í iðnaði um breytingar í bókaútgáfu, taugastríðið í jólabókaflóðinu og hvað íslenskar prentsmiðjur ættu að gera í samkeppni við erlendar prentsmiðjur. Halldór starfaði í nærri tuttugu ár við bókaútgáfu og lengst af sem útgáfustjóri Máls og menningar. „Það hafa orðið ótrúlegar breytingar á örfáum árum og stafræna byltingin hefur breytt framleiðsluferlinu,“ segir hann um þær breytingar sem hafa orðið á útgáfu bóka og prentverka. „Orðabækur eru til dæmis algjörlega horfnar sem fýsísk fyrirbæri og eru bara á netinu. Uppflettirit hafa færst á netið,“ bendir Halldór á. „Ég held að stærsta byltingin á síðustu árum sé samt ekki rafbókin, það er hljóðbókin. Það hefur verið gríðarlegur vöxtur eins og við höfum séð hjá Storytel á Íslandi.“

Amazon opnar bókabúðir

Halldór bendir þó á að prentaðar bækur séu alls ekki að hverfa. Bækur sem prentgripir hafi ákveðna sérstöðu sem tengist því sjónræna, upplifun fólks og þörf fyrir nánd. Hlutirnir eiga það til já að fara í hringi. Bækur halda áfram að skipta máli og bókin er miklu stærri en vínyllinn,“ segir Halldór um þróunina og rifjar upp orð útgefanda Halldórs Laxness um bókina þegar stafræna byltingin var að hefast. „Hann sagði, ég nota mína prentsmiðju til að búa til grirpi sem hafa eitthvað umfram rafbókina. Ég held það sé sannleikur í þeim orðum. Það kemur ekki á óvart að Amazon sé að opna bókabúðir þó að þróunin sé sú að bókabúðir eru að minnka og að fækka. Bókabúðir búa til nánd, þar eru upplestrar og uppákomur. Sama gildir um bókasöfn, þau verða viðburðastaðir,“ segi Halldór.

Taugastríð í bókaflóði

Á þeim árum sem Halldór starfaði við útgáfu bóka skipti jólabókaflóðið öllu um reksturinn. Hápunktur flóðsins og stór hluti bóksölunnar var á Þorláksmessu. „Ef vel gengur þá er það höfundinum að þakka, ef iilla gengur þá er það útgefandanum að kenna,“segir Halldór og auðvitað hafi prentsmiðjurnar fengið að kenna á stressinu líka.

Mikilvægt að halda við sérþekkingu

Halldór gefur íslenskum prentsmiðjum góð ráð til að halda velli. Það skipti öllu máli að viðhalda sérþekkingu í prentun og bókbandi. Það sé hins vegar erfitt að keppa við erlendar stórar prentsmiðjur í verði. Mögulega muni tækniþróun gera þá samkeppni léttari. „Svo er bara að fylgjast með tækniþróuninni sem gerir mönnum kleift að verða sambærilegir í verði þrátt fyrir smæð markaðarins.“

 

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband