Pappírsframleiðendur hafa leitt baráttu fyrir margföldun nytjaskóga í rúma öld

Lífseigur áróður um að pappírsnotkun valdi skógareyðingu er ekki á rökum reistur. Hörður Kristjánsson ritstjóri Bændablaðsins skrifaði á dögum ítarlega fréttaskýringu um sjálfbærni pappírsnotkunar og hér er birtur hluti hennar.

Enn eimir eftir af áróðri í heiminum gegn notkun á pappír. Þá virðast fullyrðingar um að pappírsframleiðsla valdi skógareyðingu í stórum stíl vera ansi lífseigar þrátt fyrri að í langan tíma hafi verið sýnt fram á hið gagnstæða með tölfræðilegum gögnum. Líklegt er að skortur á pappír á heimsmarkaði um þessar mundir kyndi enn undir ranghugmyndir um pappírsiðnaðinn.
Framþróun tæknimenningar mannkyns á liðnum öldum hefur að verulegu leyti byggst á aðgengi að hráefnum og orku og svo er enn. Þar hafa skógar verið afar mikilvægir, bæði til að afla viðar til húsagerðar og húshitunar sem og efniviðar í skipasmíði, ýmis tól og tæki og í pappírsgerð. 

Offramboð á pappír leiddi til lokana á verksmiðjum

Skortur á pappír á heimsmarkaði nú í haust stafar þó ekki af skógareyðingu heldur vegna heimsfaraldurs og ýmissa annarra þátta. Prentmiðlar hafa verið að draga saman seglin á síðustu árum og aukin notkun á plasti í umbúðir hafði líka um langt árabil dregið úr eftirspurn eftir pappír. Því var orðin offramleiðsla á pappír í heiminum. Til að bregðast við þeirri stöðu og til að halda uppi pappírsverði, fóru pappírsframleiðendur eins og Stora Enso í Finnlandi út í að loka pappírsverksmiðjum, en fyrirtækið framleiddi um 2,6 milljónir tonna af pappír á ári. Þar var um 15% samdráttur í sölu á síðasta ári. Stora Enso tilkynnti í apríl á þessu ári um lokun á tveim pappírsverksmiðjum til frambúðar. Þetta eru verksmiðjurnar Veitsiluoto í Finnlandi, sem er stærsta einstaka pappírsverksmiðja Stora Enso, og Kvarnsveden Mill í Svíþjóð, sem loka átti endanlega nú á haustdögum. Í Kvarnsveden Mill hefur m.a. verið framleiddur dagblaða- og tímaritapappír og framleiðslugetan var um 565.000 tonn á ári. Þar var líka framleidd pappírskvoða, eða um 900.000 tonn á ári. Við lokunina í Kvarnsveden tapast um 1.100 störf. Þetta veldur 35% samdrætti í pappírsframleiðslu fyrirtækisins sem nemur nærri 900.000 tonnum samkvæmt frétt Printweek.

Þörf sögð á að loka 15 pappírsverksmiðjum

Annica Bresky, forstjóri Stora Enso, sagði í viðtali við Printweek í apríl að offramleiðslan á pappír í Evrópu næmi um 3,5 milljónum tonna á ári. Með lokunum á verksmiðjum væri fyrirtækið einfaldlega að bregðast við veruleikanum. Sagði hún þá að það þyrfti að loka 15 pappírsverksmiðjum eða vélasamstæðum af meðalstærð til að ná jafnvægi á markaðnum.

Snöggur samdráttur olli pappírsskorti

Snöggur samdráttur í framleiðslu samfara spákaupmennsku á pappír virðist hins vegar hafa skapað glundroða á markaðinum, sem lýsti sér m.a. í pappírsskorti þegar kom fram á haustið. Vegna vandræða sem skapast hafa út af Covid-19 varð svo líka samdráttur hjá sögunarmyllum á síðasta ári og það olli skorti á timbri og hráefni til pappírsverksmiðja sem starfandi voru. Það bættist við neikvæð áhrif vegna lokunar á pappírsverksmiðjum. Pappírsverksmiðjur hafa þó í stórauknum mæli snúið sér að nýtingu á trefjum úr öðrum jurtum en trjám á síðustu árum þannig að nýting skóga minnkar enn meira. Einnig komu upp erfiðleikar vegna flutninga sem enn er ekki búið að greiða úr að fullu. Þetta olli svo skorti á pappír á markaði í haust og hefur það leitt til ört hækkandi pappírsverðs.

Lengi var gengið hraustlega á Evrópska skóga

Allt fram á 20. öld var eik afar eftirsótt til skipagerðar og var þá víða gengið mjög hratt á eikarskóga, enda viðurinn seinsprottinn. Samfara aukinni eftirspurn eftir alls konar timbri, m.a til pappírsgerðar, og auknu þéttbýli í Evrópu gekk hratt á frumskógana sem þar voru. Fyrir meira en 100 árum síðan var timbur notað í nánast allt. Það var notað sem eldsneyti til matargerðar og húshitunar og til málmframleiðslu ef kol voru ekki tiltæk. Fór þá að bera á efasemdaröddum um ágæti þess að ganga svo hratt á skóga Evrópu sem raun varð á. Um aldamótin 1900 átti sú gagnrýni fullkomlega rétt á sér og vakti menn til umhugsunar. Það leiddi síðan til nýrrar hugsunar um endurrækt skóga sem gjörbreytt hefur landslaginu í bókstaflegum skilningi. Þar hafa pappírsframleiðendur leikið stórt hlutverk, m.a. fyrirtæki eins og Domtar, Verso, Sappi og International Paper og fleiri, sem öll hafa rekið virka sjálfbærnistefnu og hafa hvatt til góðrar umgengni um náttúruna.

Skógar hafa margfaldast á einni öld

Sem dæmi um þróunina voru um aldamótin 1900 einungis eftir um 2-3% af skógum eftir í Bretlandi og Hollandi. Þetta gjörbreyttist og var talan komin í 10-12% árið 2010. Víða í öðrum löndum Evrópu voru áhrifin mun meiri. Þá hefur landbúnaður víða gefið eftir og þéttbýlið eflst og hefur sjálfsáður skógur því vaxið á ný á fyrrum ræktarlandi, eins og áberandi er í Rúmeníu og í Póllandi.

Áróðurinn gegn pappírsnotkun hélt áfram þrátt fyrir umsnúning í skógrækt

Þrátt fyrir byltingu í umgengni um skógana virðist sem sjálfskipaðir umhverfispostular og aðgerðarsinnar hafi ekki verið tilbúnir að viðurkenna umsnúninginn sem varð í skógrækt í Evrópu og Norður-Ameríku. Héldu slíkir hópar áfram látlausum áróðri um að pappírsnotkun væri að ganga af skógunum dauðum. Var slíkur málflutningur orðinn mjög áberandi eftir miðja síðustu öld. Því til staðfestingar voru birtar hryllingsmyndir frá skógareyðingu í Asíu og af Amazon-svæðinu, sem kom pappírsframleiðslu í Evrópu og Bandaríkjunum samt nákvæmlega ekkert við. Slíkur áróður skýtur enn upp kollinum á samfélagsmiðlum annað slagið, þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á með tölulegum staðreyndum að hann stenst ekki.

Úr pappír í plastumbúðir

Dropinn holaði samt steininn og áróðurinn gegn pappírsnotkuninni hafði þau meðvituðu og ómeðvituðu áhrif að í stað pappírsumbúða af öllu tagi var farið að snúa umbúðanotkuninni yfir í plastumbúðir og olíuframleiðendur kættust. Engin tré þurfti að höggva fyrir plastumbúðaframleiðsluna. Þá var ekki verra að plastpokar voru ekki nærri eins orkufrekir í framleiðslu og mun ódýrari en pappírspokar og tóku minna pláss í geymslu. Gefnar voru út lærðar skýrslur um ágæti plasts í umbúðir og allt var að sjálfsögðu skreytt með áliti vísindamanna. Nú vita allir hvert þessar öfgar hafa leitt jarðarbúa, sem eru hreinlega að drukkna í plasti. Nú horfa menn upp á heilu plasteyjarnar fljótandi um heimshöfin og stórfljót m.a. í Asíu yfirfull af plastúrgangi.

Úr skógareyðingu í gríðarlegan skógarvöxt

Ef litið er yfir söguna er það tölfræðileg staðreynd að um aldamótin 1900 var búið að eyða stórum hluta af skóglendi Evrópu. Þegar menn sáu fram á alvarlegan skort á viði sem hráefni var farið að huga að skógrækt. Slíkum hugmyndum óx mjög ásmegin eftir síðari heimsstyrjöldina 1945. Þá hófu mörg lönd gríðarmiklar skógræktaráætlanir sem eru enn í gangi í dag. Þótt þessi umsnúningur hafi verið góður, m.a. með tilliti til loftslags, þá fylgir ræktun nytjaskóga sá galli að tegundafjölbreytni skóganna minnkar. Einsleitni í tegundavali getur þannig aldrei komið í stað náttúrulegu frumskóganna sem fyrir voru.

Margföldun skóga í Evrópu

Nú er svo komið að skógarþekja í Evrópu hefur margfaldast á síðustu rúmum hundrað árum. Svipaða sögu má segja frá Bandaríkjunum. Það má m.a. þakka pappírsiðnaðinum sem setti sér fljótlega háleit markmið í uppgræðslu skóga á alþjóðavísu. Farið var í herferðir eins og „Go Paper. Grow Trees“, og „Print Grow Trees“, sem reknar voru af prent- og grafíksamtökum á MiðAtlantshafssvæðinu, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum (Printing & Graphics Association MidAtlantic). Fólust þessar herferðir í því að fyrir hvert tré sem höggvið var til pappírsgerðar var plantað fjölmörgum í staðinn, allt upp í níu trjám. Aukaafurðir í timburvinnslu gefa af sér mikilvægar viðartrefjar til pappírsframleiðslu Ferskar viðartrefjar koma ekki bara úr stórum trjábolum, því þær falla oftar en ekki til sem aukaafurðir úr timburframleiðslu. Það er greinar, pappírskurl og sag auk grisjunarviðar sem fellur til í skógrækt. Í Kanada kemur um 87% trefjanna sem notaðar eru til að búa til pappír úr aukaafurðum sögunarverksmiðja (59%) og úr endurunnum pappír (28%). Í Bandaríkjunum koma 9% af efninu sem notað er í pappírskvoðaframleiðslu úr grisjun og um 32 % er úrgangstimbur frá sögunarmyllum. Skilvirk notkun á endurunnum pappír og aukaafurðum úr sögunarverksmiðjum er lykilþáttur í hringlaga hagkerfi pappírsgerðar – sem gerir ráð fyrir bættri trefjanýtingu og hráefnisnotkun.

Pappírsendurvinnsla í Evrópu og Norður-Ameríku að nálgast raunhæft hámark

Á heimsvísu er endurunninn pappír mikilvægasta trefjahráefnið í pappírsframleiðslu og stendur yfir 56% þeirra trefja sem fara í gerð pappírskvoðu. Í Evrópu er endurunninn pappír um 50% af því hráefni sem notað er í pappírsiðnaði. Í Evrópu eru pappírstrefjar endurnýttar 3,6 sinnum að meðaltali en heimsmeðaltalið er 2,4 sinnum. Ekki er hægt að endurvinna pappír endalaust vegna þess að trefjar verða of stuttar og brotna niður í pappírsgerðinni. Vegna þessara takmarkana er notkun ferskra viðartrefja úr sjálfbærum skógum nauðsynleg til að viðhalda alþjóðlegu trefja- og pappírsframleiðsluferli.

Evrópa er leiðandi í heiminum í endurnýtingu á pappír

Auk mikillar skógræktar er Evrópa leiðandi í heiminum í dag varðandi endurvinnslu pappírs með 72,3% endurvinnsluhlutfall. Þar á eftir kemur Norður-Ameríka með 68,1% samkvæmt tölum American Forest & Paper Association, 2019, European Paper Recycling Council 2018 og FPAC, 2015. Talið er að endurvinnsluhlutfall upp á 78% sé líklega það hámark í endurvinnslu sem raunhæft sé að stefna á. Þá er gengið út frá því að ekki er hægt að endurheimta margar pappírsvörur til endurvinnslu vegna langtíma geymslu, eins og pappír sem notaður er í bækur og skjöl. Þá eyðileggst alltaf hluti af pappírnum eða mengast þegar hann er notaður, t.d. í pappírsþurrkur, bleiur og annað.

Hér má lesa blaðið í heild sinni.

 

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband