Strigastrekking

Strigastrekking yfir panel eða viðarklædda veggi er vinnuaðferð sem á sér rúmlega 100 ára sögu á Íslandi og enn lengri sögu erlendis. Ásgeir Beinteinsson skrifar um sögu aðferðarinnar.

Aðferðin tíðkaðist bæði á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu. Ekki er vitað hvað elsta húsið er gamalt sem strigi var strekktur á. Elsta húsið sem við höfum endurnýjað og endurnýtt gamlan striga á var byggt árin 1907 til 1908 og það er hús Thors Jensen við Fríkirkjuveg 11.

Í myndbandinu hér að ofan fylgja ljósmyndir sem sýna m.a. vinnu við strigastrekkingu við Fríkirkjuveg. Á þeim myndum eru þrír ættliðir. Fríkirkjuveg 11 teiknaði Einar Erlendsson og var efnið í það pantað frá Svíþjóð. Húsið er timburhús og eru allir veggir með strekktum striga á hæðum en ekki í kjallara og risi. Þess má geta, að eftir að striginn var strekktur og pappírinn kominn á í Fríkirkjuvegi 11 var pappírinn olíugrunnaður og þá tóku málarar til við að oðra og marmorea. Oðrun er málunaraðferð til að líkja eftir viðarklæðningu en með marmoreringu er líkt eftir marmara. Þessi aðferð er listmálun og slíkir veggir sannkallað augnayndi.

Á þessu má sjá að um aldamótin 1900 er þetta sú aðferð sem beitt er til að fá veggi slétta en auk þess virkar striginn og pappírinn sem lofteinangrun, þannig að timburhúsið andar vel og auka vindþétting er vegna strigans og pappírsins. Timburhús sem byggð voru fyrir aldarmótin í Reykjavík og fram eftir öldinni voru með strigastrekktum veggjum. Þegar líður fram yfir miðja öld eru komin efni og plötur til að klæða með veggi og á sama tíma varð algengt að múra innveggi í steinhúsum. Nokkuð lengur hélst sú venja að strekkja striga í loft því að það var einfaldara og fljótlegra en að kasta og draga múr upp yfir sig. Á strekktan striga var svo límdur maskínupappír með heitu hveitilími en um aldamótin 1900 voru dagblöð notuð til að líma á strigann en annars var aðferðin eins. Síðan var veggfóðrað yfir dagblöðin eða skrautmálað eins og áður segir. Því er það að margir sem gera upp eldri hús finna dagblaðssíður við strigann sem eru stundum klipptar út og varðveittar. Þetta eru bæði innlend og erlend dagblöð, en þó virðast erlend dagblöð algengari, sem geyma áhugverð augnablik frá þeim tíma sem húsin voru byggð.

Eins og lýst er í myndbandinu þá er aðferðin í fljótu bragði svona. Veggfóðrarinn kemur að panelklæddum vegg, mælir hann út og saumar saman hessían striga sem er 130 sm á breidd þannig að hann klæði allan vegginn. Þetta er sami strigi og notaður er til að pakka inn fiski - einkum saltfiski. Í dag er striginn síðan heftur við loft, lárétt, og þess gætt að fylgja láréttum þráðum í vefnaðinum. (Áður var striginn negldur með blásaum enda bólstrun og veggfóðrun sama iðngrein).

Striginn er brotinn inn undir sig um það bil 5 cm. Eftir að hann hefur verið heftur lárétt er hann heftur öðru megin lóðrétt í kverk og þá er þess einnig gætt að fylgja þráðum lóðrétt í vefnaðinum. Ekki skiptir máli hvoru megin neglingin/heftun er en það getur farið eftir því hvort að veggfóðrarinn er rétthentur eða örfhentur þegar kemur að strekkingu.

Þegar neglt hefur verið lárétt og lóðrétt er veggurinn forstrekktur og þá hefur fagmaðurinn vel brýnda síla til að strekkja og halda strekknum á meðan heft er. Fyrst er strekkt í hornið á móti vinklinum í horninu uppi og þá er kominn ferhyrningur. Þetta er fyrsta forstrekkingin og síðan er gott að forstrekkja lóðlínuna í móti þeirri hlið sem er fullnegld. Gott er að forstrekkja með þremur til fjórum millibilum í lóðlínu, miðað við venjulega lofthæð. Sama er gert lárétt niðri við gólf. Forstrekkt er fyrir miðju og á það líka við lóðlínuna í forstrekkingu. Fleiri forstrekkingar þarf lárétt en lóðrétt en segja má að um 40 sem séu á milli forstrekkinga. Annars er það er oft háð tilfinningu hve mörg bil eru á milli forstrekkinga. Það má toga nokkuð vel í, við forstrekkingu en þess er gætt að aflaga ekki strigann.

Eftir þetta er veggurinn oftast látinn standa í um einn sólarhring áður en fullstrekkt er. Þannig tekur striginn í sig raka og hita herbergisins. Þegar veggur er forstrekktur með heftibyssu er gott að skáskjóta, þannig að auðvelt sé að taka heftin í burtu með naglbít þegar fullstrekking hefst. Í fullstrekkingu er hver og ein forstrekking losuð fyrir sig og aftur er togað í og fullheft. Þetta má gera sitt á hvað lóðrétt og lárétt, þannig varðveitist lögun veggjarins. Ef gluggar eru á vegg þá er strekkt yfir þá en þeir eru klipptir úr eftir að veggurinn hefur verið fullstrekktur og er þá beitt sömu aðferð og á heilum vegg. Klippt er þannig að um 5 sm brot sé á striganum allan hringinn, sem brotinn er inn undir. Fyrst er togað lárétt yfir glugganum og síðan lóðrétt öðru megin og síðan er hinar hliðarnar forstrekktar. Fljótlega má síðan fullstrekkja í kringum gluggann. Ekki er ástæða til að toga fast í, tilfinning ræður - því nægilegt er að allir fletir haldi lögun sinni. Yfir strigann er límdur maskínupappír og eftir að hann er þurr er hann grunnaður með olíu eins og áður segir. Notað er þykkt tilbúið lím í dag en í gamla daga var notað hveitilím gert úr hveiti, heitu vatni og vítissóda.

Hvers vegna gerðu menn þetta? 

Vitað er að Kínverjar límdu hrísgrjónapappír á veggi um árið 200 fyrir okkar tímatal. Við vitum einnig að víkingar tjölduðu veggi með teppum eða dreglum með myndum á sem voru hengd upp til skrauts. Einnig sjáum við í köstulum Evrópu risastór teppi eða vefnaði sem hengd voru yfir hlaðna veggi. Þessar aldagömlu hefðir gengur í endurnýjun með pappír þegar Lúðvík 11. Frakkakonugur lét teikna myndir árið1481 á rúllur af pappír til að ferðast með og skreyta umhverfi sitt á áningarstöðum. Elsta veggfóður sem vitað er um fannst í Cambridge og er frá árinu 1509. Strigastrekking er því hluti af aldagamalli hefð sem hefur þann tilgangi að klæða og skreyta veggi. Hins vegar má rekja veggskreytingar hins upprétta manns 30 til 40 þúsund ár aftur í tímann til hellamálverka.

Þess má geta til gamans í lokin að Meistarafélag veggfóðrara lagði til árið 1933 við „háttvirt“ Iðnþing að strigalögn yrði hluti af sveinsprófi, sem sýnir hve algeng aðferðin var og er textinn svona: Nemendur eiga að sýna aðferðir við strigalögn súðherbergis eftir ákvæðum prófnefndar, veggfóðra herbergið og kantsetja það, skreyta með veggfóðri og leggja fram teikningu þar af. Veggfóðrið skal valið i samráði við prófnefnd. (Tímarit iðnaðarmanna, 2. Tbl. 01.05.1933)

Ásgeir Beinteinsson
Nemi í dúklagningum og veggfóðrun.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband