Meiri sköpun og minni sóun í prentiðnaði

Halldór Ólafsson annar eigandi Pixel ræðir um prentiðnað og þróun stafrænnar prentunar í nýjast þætti Augnabliks í iðnaði

„Það er miklu meira prentað í dag en í minni upplögum,“ segir Halldór Ólafsson annar eigandi Pixel stafrænnar prentsmiðju um þróunina í iðnaðinum. Áður hafi þótt hagkvæmt að fara í offsetprentun við 1000 eintök, mörkin færist sífellt ofar. Nú séu þau við 3-5000 eintök en muni í framtíðinni færast mun ofar. Halldór Ólafsson er gestur Gríms Kolbeinssonar í hlaðvarpinu Augnablik í iðnaði.

Halldór starfaði sem verkstjóri í filmudeild Odda snemma á tíunda áratugnum þegar honum var boðið starf árið 1997 í lítilli breskri prentsmiðju sem var að taka sín fyrstu skref í stafrænni prentun. „Á þessum tíma var þróunin gríðarlega hröð, manni finnst ekki sami hraði í þróuninni í dag,“ segir Halldór en á þessum tíma var réð offsetprentun ríkjum og upplögin jafnan risastór. Nú sé bilið að minnka og tíminn sem líður frá því að prentverkið kemur í hús og í hendur viðskiptavina styttist sífellt. „Maður var oft með frasann, það er inn í dag út á morgun. En nú segir maður: Inn í dag og út í kvöld!“

Halldór nefnir að erlendis séu spennandi tækjakostir sem ráða við stór upplög. Þær séu hins vegar dýrar og fjárfestingin borgi sig líklega ekki vegna smæðar hins íslenska markaðar. Íslenskur prentiðnaður hafi minnkað töluvert síðustu ár, hann hafi orðið svo svartsýnn á framtíð iðnaðarins að hann hafi ráðlagt börnum sínum frá því að mennta sig í faginu. Breytingarnar hafi hins vegar falið í sér ótal tækifæri og það sé bjartara yfir iðnaðinum. Við framþróun í tækni verði á sama tíma mikil aukning í sköpun og afurðirnar séu fleiri og fjölbreyttari en áður. Það sé til meira af sértækara efni sem höfðar til hvers og eins. „Það verður meiri sköpun, meiri prentun en minna upplag og þar er stafræn prentun náttúrulega gríðarlega sterk.

„Annar styrkleiki stafrænnar prentunar er Halldóri ofarlega í huga. „Með stafrænni prentun minnkar sóun, hún er umhverfisvæn.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband