Nýsköpun er ekki afurð heldur sköpunarferli

Tryggvi Thayer er kennsluþróunarstjóri á menntavísindasviði Háskóla Íslands og er með doktorsgráðu í menntunarfræði. Hann hefur sérhæft sig í nýsköpun í kennslu og kennslufræði og sérstaklega í notkun framtíðarfræða til að greina áskoranir og tækifæri í menntun.

Tryggvi ræðir í fyrirlestri sínum fyrir IÐUNA fræðslusetur um nýsköpun, hvað hún er og hvað hún er alls ekki. „Eins og gjarnan er með ákveðin hugtök, þá komast þau í tísku og margir vilja eigna sér þau og fara þá í að skilgreina þau eftir sínu höfði til þess að tryggja að það sem þeir gera falli undir þau,“ segir dr. Tryggvi Thayer og segir það hafa verið tilfellið með hugtakið nýsköpun víða. „Nýsköpun er ekki afurð, nýsköpun er ferli.

Þetta er erfiðara fyrir okkur Íslendingana en til dæmis þá enskumælandi að meðtaka, því að við höfum ekki þessa sögn, sem er að nýskapa (þ.e to innovate). Hjá okkur hljómar þetta eins og afurð og við þurfum að vera skýr í því að þegar við erum að tala um nýsköpun þá erum við að tala um sköpunarferlið sem leiðir eitthvað af sér sem að gagnast öðrum á nýjan hátt.“ Tryggvi ræðir í fyrirlestrinum um ýmsar mismunandi leiðir til að stunda nýsköpun og gefur dæmi og ítrekar kjarna nýsköpunarhugtaksins.

„Það að fá einhverja hugmynd og að nýta hana fyrir sjálfan sig er ekki nýsköpun. Nýsköpun gagnast einhverjum öðrum. Við þurfum að taka þessa frábæru hugmynd okkar sem hefur gagnast okkur sjálfum og útfæra hana þannig að aðrir sjái merkingu, gildi og gagnsemi.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband