Sveppasprettan mjög misjöfn eftir landshlutum í ár

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur stundar rannsóknir á íslenskum sveppum, tegundum og útbreiðslu þeirra.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur

    Hún var stödd á höfuðborgarsvæðinu í svepparannsóknarleiðangri þegar IÐAN fræðslusetur tók hana tali.

    „Fyrir norðan sést varla nokkur sveppur,“ segir Guðríður Gyða og útskýrir vaxtarferil sveppa sem geta verið neðanjarðar árum saman áður en þeir skjóta upp kollinum. „Það sem sést af sveppunum eru aldinin. Líkami sveppsins er einhvers staðar í jörðinni t.d. vafinn um rótarenda trjánna sem þeir mynda svepprót með og þaðan sem liggja fíngerðir þræðir út í jarðveginn til að safna næringu úr honum. Þegar þeir ákveða að aðstæður séu réttar til að fjölga sér þá búa þeir til sveppaldin. Þau hlífa litlu frumunum sem munu skipta sér og mynda gró sem eru afkomendur sveppsins og sjá auk þess um að dreifa þeim út í loftið. Sameindalíffræðin varpaði ljósi á lífríki sveppa, það var hægt að raðgreina lífverur í jarðvegi og þá kom í ljós að til var urmull af sveppum sem enginn hafði vitað af áður,“ segir Guðríður Gyða og minnir á að sveppir hafi margvísleg og mikil áhrif á líf okkar og gegni til dæmis stóru hlutverki til varnar loftlagsáhrifum og til verndar trjáa.

    Sérstæðir sveppir í gömlum skógum

    Sveppir eru mjög mismunandi lífverur og gegna misjöfnum tilgangi. Margir sveppir vaxa í samlífi við tré og þiggja kolefni sem þau binda. Sveppirnir búa á rótarendum trjánna og sjá um að veita þeim vatn og áburð, þeir virka eins og lifandi rör sem getur flutt efni fram og til baka. Þetta er gamalt sambýli og trén þrífast ekki almennilega fyrr en þau eru búin að tengjast sveppunum sínum,“ segir hún en vissar tegundir sveppa vaxa með íslenskum trjám. Við höfum sveppi sem vaxa með íslenska birkinu, fjalldrapanum og svo sveppi sem vaxa með íslensku víðitegundunum. „Ræturnar á lerki eru eins og yddaður blýantur, þau nota bara sveppina í stað rótarhára. Það getur verið fjöldi af sveppum sem tengist rótarkerfi eins trés. Tréð hefur þá möguleika á því að bregðast við hverju sem er með aðstoð sveppsins, þurrki, bleytu og ýmsu álagi eða til að verjast árásum skordýra.·

    Dauð tré mikilvæg

    Af sveppum sem vaxa í samlífi við íslenskan trjágróður nefnir Guðríður Gyða sérstaklega sólhneflu, Russula intermedia, sem vex í gömlum birkiskógum. „Stór og rauð en þegar hún er farin að eldast kemur dæld í miðjuna sem gulnar. Ég hef séð sólhneflu með gömlu birki í Hallormsstaðaskógi og líka í Skorradal.“ Hún nefnir að aldur skóga skipti máli og skapi mikla möguleika fyrir líffræðilega fjölbreytni. Það er í takt við breyttar aðferðir síðustu ára í ræktun nytjaskóga í Evrópu þar sem þess er gætt að visst hlutfall skóganna fái að eldast. „Dauð tré skapa mikla möguleika fyrir líffræðilega fjölbreytni sveppi og þau dýr og aðrar örverur sem þeim fylgja og taka þátt í rotnunarferlinu. Það vaxa til dæmis mjög sérstakir sveppir á eldgömlum og deyjandi eikum erlendis,“ nefnir hún.

    Kóngssveppurinn lætur lítið á sér kræla fyrir norðan

    Sjálfri finnst Guðríði Gyðu best að borða furu- og lerkisveppi. „Stundum reyni ég að taka kúalubba en maðkarnir eru fljótir að ná þeim. Mér finnst gott að annað hvort þurrka þá eða frysta þá soðna í eigin safa. Þá eru þeir bara tilbúnir í pottréttinn. Hún er einnig hrifin af kantarellum eins og margir aðrir og segir þær finnast æ víðar um landið. „Upp á síðkastið hafa menn verið að finna kantarellur út um allar jarðir, þær vaxa á Vestfjörðum, Vesturlandi, í Aðaldalnum og útkjálkum norðanlands, til dæmis í grennd við Kópasker. Þær fela sig oft undir lyngi en fyrirhöfnin er þess virði því þetta eru klassa matsveppir. Og þá er það kóngssveppurinn, Boletus edulis, sem hún hefur visst dálæti á en kóngssveppurinn fannst fyrst í Vaglaskógi um 1960. „Þegar fólk barmaði sér yfir því hvað Vaðlaheiðargöngin væru dýr þá var ég á því að það væri nú þess virði því nú væri komin bein leið í kóngssveppslendur fyrir okkar Akureyringa.“

    Gæðaþurrkun sveppa - Hvernig er best að þurrka sveppina?

    Þótt að margir skelli sveppunum strax á pönnuna eftir góða uppskeru vilja margir eiga eitthvað til vetrarins. Eins og Guðríður Gyða sagði frá kýs hún að sjóða þá í eigin safa og frysta eða að þurrka þá. Hún segir enga ástæðu til að vera að glíma við þurrkunina með heimatilbúnum ráðum, nú séu til mjög vandaðir þurrkofnar. „Ég á þrjá þurrkara, Kokka selur klassavöru, svissneska hönnun sem ég er hrifin af. Það er miklu öruggara að nota góðan þurrkara því þarf að vanda til verka. Með góðum þurrkara er minni hætta á að sveppirnir ofhitni og verði að svörtum klessum!

    Svarar fyrirspurnum áhugasamra

    Guðríður Gyða heldur úti Facebook síðunni Funga Íslands - sveppir ætir eður ei þar sem hún er mjög iðin við að svara fyrirspurnum áhugafólks um sveppatínslu og matreiðslu. Þar er fólk duglegt að deila myndum af sveppum sem það hefur fundið á ferðum sínum um landið og vill vita hvaða tegund þeir séu og hvort þeir eru ætir eða jafnvel hættulegir. Hér á landi vex baneitraður sveppur viðarkveif, Galerina marginata, á viðarkurli. Og annar hættulegur eitursveppur er garðalumma, Paxillus involutus, sem vex með birki en hann er hins vegar líklegra að finna í garði í Reykjavík fremur en í skógi. Þeir sem eru að byrja að tína sveppi sér til matar er ráðlagt að byrja á pípusveppum eins og lerkisvepp, furusvepp og kóngssvepp en pípusveppir hérlendis eru góðir matsveppir nema piparsveppur sem bestur er í mjög smáum skömmtum.

    Rigningin góð

    Vanalega hefur Norðurlandið verið gott sveppaland en sveppirnir eru seinir upp í ár þar sem stanslaus þurrkur tefur þá. Á Austurlandi er vanalega mikið af lerkisveppum í Hallormsstað. Nú er hins vegar mest komið upp af sveppi á Vestfjörðum og Vesturlandi. Það er minna af sveppum á Suðurlandi en þó er að finna góða sveppi í birkikjarrinu. „Margir sveppanna fylgja ákveðnum trjátegundum, lerkisveppurinn vex aðeins þar sem er lerkiskógur og kúalubbinn fylgir birkitrjám,“ segir Guðríður Gyða og minnir á að það sé ekki hægt að gera nákvæmar áætlanir um sveppatínslu og matreiðslu. „Maður verður að sæta lagi til að tína sveppi það er ekki hægt að segja; ég ætla að fara í fyrstu vikunni í september og tína furusveppi, sveppurinn vex eftir aðstæðum og veðri og vöxturinn getur verið mjög misjafn í hverjum landsfjórðungi, veðráttan hér fyrir sunnan gefur góð fyrirheit,“ segir Guðríður Gyða kankvís en mikil vætutíð hefur verið undanfarið sunnanlands og líklegt er að finna sveppi einum til tveimur dögum eftir úrhelli.

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband