Við erum öll með einn í vasanum

Hjónin Anna Hildur Hildibrandsdóttir og Gísli Þór Guðmundsson halda utan um vinnusmiðjuna Símasögur sem fer fram þann 1. og 8. september næstkomandi.

Anna Hildur og Gísli Þór
Anna Hildur og Gísli Þór

Á námskeiðinu Símasögur læra þátttakendur að nota símann sem miðlunartæki og læra að taka upp mynd og hljóð og klippa efnið til með símaforritunum Filmicpro og Kinemaster. Kennarar á námskeiðinu eru þrautreynt fjölmiðlafólk frá Bretlandi sem hefur sérhæft sig í stafrænni efnisgerð. Anna Hildur og Gísli Þór eru tiltölulega nýflutt til landsins eftir langa búsetu í Bretlandi og eru þekkt fyrir að vera bæði skapandi og atorkusöm.

Segið mér aðeins frá bakgrunni ykkar sem mér sýnist suðupottur sköpunar! Hvernig hefur ferillinn ykkar þróast. Fór allt eins og þið hélduð?

„Við eigum það sameiginlegt að pæla ekki mikið í ferlinum eða þróun hans. Við höfum verið svo heppin að geta lifað af því að vinna við það sem við höfum ástríðu fyrir", segir Gísli Þór. Anna Hildur er menntaður íslenskufræðingur og kennari og ég er menntaður prentsmiður sem er fag sem lagðist af örfáum árum eftir að ég kláraði það nám í Iðnskólanum í Reykjavík. Það varð til þess að ég ákvað að fara í grafíska hönnun í London og vann sem slíkur í 12 ár. Anna Hildur varð fljótlega fréttaritari Bylgjunnar og Stöðvar 2 eftir að við fluttum út árið 1991 og fór í MA nám í útvarpsvinnslu. Hún starfaði síðar sem fréttaritari RÚV og vann við ýmsa alþjóðlega fjölmiðla í lausamennsku fram til ársins 1998 þegar hún söðlaði um og hellti sér í umboðsmennsku fyrir tónlistarmenn. Bellatrix voru fyrsta hljómsveitin. Nokkrum árum síðar fórum við saman í að reka umboðs- og ráðgjafafyrirtæki sem ég tók yfir þegar Anna Hildur var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri ÚTÓN og síðar Norræna útflutningsverkefnisins NOMEX."

Þið hafið búið svo lengi í Englandi- fylgir því ekkert menningarsjokk að flytja aftur heim? Eða eruð þið kannski með annan fótinn úti?

„Það er byrjað að rifjast upp fyrir okkur hvað Ísland er agnarsmátt samfélag og hvers vegna við fórum á sínum tíma en svo kemur það okkur líka skemmtilega á óvart hvað fjölmenningarsamfélagið er að skjóta rótum. Þetta er ekki sama Ísland og við kvöddum fyrir 30 árum," segir Anna Hildur. „En já við erum flökkukindur sem stendur og í huganum eigum við heima á tveimur stöðum. Ég var á krossgötum þegar NOMEX verkefninu lauk og setti þá upp kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Tattarrattat með breskum vinum mínum Iain Forsyth og Jane Pollard. Ég fann sífellt meira fyrir sterkri löngun til að flytja til Íslands og vera nær fólkinu sem ég var að þróa verkefni með. Gísli er ennþá í aðlögun en við vitum að það er stutt að fara til London og við eigum bæði fjölskyldu, samstarfsfólk og vini sem við höldum áfram að rækta. Þegar maður er einu sinni búinn að rífa upp ræturnar þá dreifast þær á þá staði sem maður heldur mest upp á."

Gísli, hvaða trend sérðu í kringum þig, hvaða augum lítur þú þróunina?

„Í takt við snjallsímatæknina þá sér maður að forrit eru orðin aðgengilegri almenningi og það er auðveldara að gera hluti á tölvunum heldur en var þegar prentverk var ennþá á plötum og filmum. Þannig sér maður hópa listamanna gera meira af kynningarefni og hönnun sjálfir. Að því leyti já þá eru fleiri möguleikar og ekki eins skýr skil á milli greina þar sem tækjunum og tækninni hefur fleygt fram. En það breytir ekki því að listrænir hönnuðir hafa alltaf verið áhrifavaldar og fagfólk í hönnun hefur sennilega aldrei verið eftirsóttara.“

Anna Hildur, þú ert þrautreynd markaðs- og fjölmiðlakona-hvaða trend sérðu að eru áberandi í markaðsstarfi og miðlun?

„Samfélagsmiðlar eru ráðandi í markaðssetningu. Það eru hraðar breytingar og sífellt ný öpp sem taka við en það sem öll nýju öppin eiga sameiginlegt er að myndbönd eða myndefni er ráðandi. Ég man að ég sagði frá Musical.Ly í fyrirlestri árið 2017 og 2018 var það sameinað Tik Tok og nú nýverið heyrðum við að því er hlaðið niður oftar en Facebook sem hefur verið ráðandi á markaði. Þetta er bara eitt dæmið. En í heildina þá eru persónugerð skilaboð þar sem neytandinn er ávarpaður beint og góðar sögur sem virka með hugmyndaríkum lausnum á myndefni.“

Hvers vegna er nauðsynlegt að ná góðri færni í að nota símann sem tæki til að miðla?

„Vegna þess sem að ofan er talið," segir Anna Hildur. „Það er sífellt ríkari krafa að geta búið til hvers kyns kynningarefni með ódýrum hætti. Það er svo margt sem er hægt að gera á nýjustu snjallsímunum og það er sóun að nýta sér það ekki. Við erum öll með einn í vasanum."

Er þetta færni sem nýtist í fleiri störfum en til dæmis blaðamennsku og markaðsstarfi?

„Já algjörlega,” segja Anna Hildur og Gísli Þór og jánka í takt. Þau telja upp gagnsemina sem felst í að tileinka sér að nota snjallsímana við að búa til hvers konar fræðsluefni, vinna heimildavinnu og ekki síst búa til skemmtileg fjölskyldumyndbönd. „Færnin snýst bæði um að læra að hafa hljóðið og lýsinguna í lagi. Æfa sig að finna bestu rammana þegar er myndað og nýta öppin sem geta bestað myndavélina sem er í símanum,“ segir Anna Hildur.

Segið mér aðeins betur frá kennurum námskeiðsins og nálgun þeirra.

„Jane, Josh og Connor eru einstaklega hæfileikaríkt fólk sem hafa sérhæft sig í stafrænni efnisgerð. Jane var yfirmaður fréttadeildar BBC í London um árabil og vann þar bæði með útvarps-, sjónvarps og vefréttir. Hún innleiddi snjallsímanotkun þar og sendi teymin út til að gera efni á símana þegar bregðast þurfti skjótt við. Þau þjálfa fólk hjá Google og öðrum stórfyrirtækjum samhliða því að taka þátt í samfélagsverkefnum í breska smábænum Arundal þar sem þau búa.“ Anna Hildur bætir við að það sem henni finnist mest heillandi við þau sé hversu góðir kennarar þau séu. „Það er alveg sama hversu mikill byrjandi þú ert þau hafa alltaf tíma og þolinmæði til að finna leið með viðkomandi til að ná tökum á þessari tækni. Það er mjög hvetjandi að fá þjálfun frá þeim.“

Hvað er á döfinni hjá ykkur annað?

„Ég er að reka fyrirtækið okkar Glimrandi sem við Anna Hildur settum upp saman þegar við fluttum til Íslands fyrr á árinu. Fyrirtækið snýst um menningarframleiðslu og við erum með mörg spennandi verkefni í þróun þar sem við nýtum okkur þá reynslu og tengsl sem við höfum í kvikmynda- og tónlistargeiranum,“ segir Gísli Þór. „Anna Hildur er líka í 50% starfi við Háskólann á Bifröst sem fagstjóri skapandi greina og er þar að byggja upp nýtt og spennandi BA nám sem er sitt fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Það er því margt skemmtilegt í farvatninu samhliða Símasögunámskeiðunum en við sjáum mikla möguleika í að þróa tengd verkefni út frá þeim.“

Takmörkuð pláss í boði. Tryggið ykkur pláss á námskeiðinu Símasögum hér.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband