Okkur þykir vænt um bækur

Gréta Þorkelsdóttir og Júlía Runólfsdóttir grafískir hönnuðir og eigendur Signatúra Books ræða um framtíð prents, bækur og bókverk og viðburð sinn á Hönnunarmars þar sem gestum gefst tækifæri til þess að skoða prentverk sem sitja í strúktúrum eftir Völu Jónsdóttir.

„Stafræn bók er bara pdf skjal en ekki bók, okkur þykir vænt um bækur,“ segja þær Gréta Þorkelsdóttir og Júlía Runólfsdóttir í nýju hlaðvarpi í Augnabliki í iðnaði.
Þær stofnuðu saman Signatúru Books árið 2019 sem bókaútgáfu fyrir prentuð verk. Fyrirtækið hefur þróast síðan og nú hanna þær bækur og miðla þekkingu sinni á því að búa til bækur og smárit.
Gréta og Júlía ræða um framtíð prentlistar og ákveðinn misskilning sem getur þegar prentverk er borið saman við stafræn verk. „Annað útilokar ekki hitt, þetta er önnur upplifun,“ benda þær á og minna á þá staðreynd að spjaldtölvan sé alls ekki umhverfisvæn. Prentverkið muni áfram verða til bæði vegna fagurfræði og notagildis. Fólk hafi þörf fyrir að eiga, horfa á og snerta. Þá séu prentuð verk góðar heimildir.„Prentaðar bækur eru ein besta heimildaskráning sem til er,“ segja þær.
Á Hönnunarmars verða þær með skemmtilegan viðburð sem tengist prentlist, bókagerð og grafískri hönnun og opna „Bookasafn Signatúru.“ Viðburðurinn opnar á Hafnartorgi þann 19.maí. Þær báðu um innsend bókverk sem þær stilla fram í strúktúrum sem eru smíðaðir af Völu Jónsdóttur. Megináhersla „Bookasafnsins“ er lögð á að sýna verk eftir unga listamenn, hönnuði og ljósmyndara.

Meira um viðburðinn hér: https://honnunarmars.is/dagskra/2021/signatura-bookasafn

Hlustið á skemmtilegt spjall við Grétu og Júlíu. 

 Þú getur gerst áskrifandi að Augnabliki í iðnaði á Soundcloud og Spotify

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband