Atvinnulífið tekur vel í átaksverkefni um sumarstörf iðnnema

„Rúmlega 130 fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á því að taka við iðnnemum í sumar,“ segir Hildur Elín Vignir framkvæmdastjóri IÐUNNAR fræðsluseturs.

    „Við höfum tök á því að bæta við 150 nýjum námssamningum í sumar,“ segir Hildur um átaksverkefni stjórnvalda sem miðar að því að fjölga tækifærum fyrir iðnnema sem eru án námssamnings að komast í vinnustaðanám í sumar. Þetta úrræði er fyrir þá nema sem eru skráðir í nám á vor- eða haustönn 2021 og eru án námssamnings. Iðnnemar skulu vera 18 ára (á árinu) og eldri.

    Markmiðið með átaksverkefninu er að fjölga nemum í vinnustaðanámi. Úrræði stjórnvalda er tímabundið og gildir frá 15. maí til 15. september 2021. Hverjum nema fylgir styrkur sem nemur launum skv. kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags auk mótframlags í lífeyrissjóð.

    „Það er stutt síðan við fengum verkefnið í fangið en við fögnuðum framtakinu og fórum strax í að kanna áhuga hjá fyrirtækjum að taka þátt í þessu átaksverkefni. Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum og það sýnir góðan vilja atvinnulífsins þar sem hefur ríkt óvissa frá því á síðasta ári vegna Covid-19. Við vonum að þessi góði vilji skili sér í fjölgun námssamninga og gleðjumst einnig fyrir hönd þeirra nema sem fá góða starfsreynslu í sumar.“

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband