Microsoft veðjar á fjarvinnu og símenntun

Microsoft Viva er byltingarkennd lausn utan um fjarvinnu inni í Teams þar sem starfsmenn geta haldið utan um flesta þræði og stjórnendur hafa góða yfirsýn yfir verkefni, álag og jafnvel líðan starfsmanna sinna.

  • Fjórða iðnbyltingin

Microsoft sýnir í verki að þeir veðja á stóraukna fjarvinnu fólks í framtíðinni. Þær venjur sem hafi orðið til í neyð í Kóvid-19 séu margar til hagsbóta fyrir fyrirtæki, starfsmenn og samfélagið. Sveigjanleikinn geti komið sér vel fyrir starfsfólk, fyrirtæki hafa hag af því að geta nýtt verðmæta starfskrafta sem búa fjarri höfuðstöðvum þess. Minni umferð fólks á milli heimilis og vinnu gæti einnig haft verulega jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar.

Óskipulögð fjarvinna getur valdið streitu

Stór hluti Íslendinga vann fjarvinnu á síðasta ári til lengri tíma. Það reynist fólki miserfitt. Enda er heimilið líka okkar griðastaður þar sem við sinnum börnum, áhugamálum okkar og heimilisverkum. Þannig getur fjarvinna fyrirsjáanlega valdið streitu og núningi innan heimilisins. Þá eru ekki allir jafn vel settir þegar kemur að rými og góðri aðstöðu til vinnu. Það er að mörgu að huga og það eru einmitt þessir hlutir sem Microsoft Viva er ætlað að liðsinna bæði stjórnendum og starfsfólki í. Að gera flókið líf einfaldara og tækla krefjandi aðstæður.

Viva hannað til að finna jafnvægi

Í fréttatilkynningu frá Microsoft í vikunni má lesa að Viva í rauninni hannað sem gátt fyrir bæði starfsmenn og fyrirtæki til að ná tökum á nýjum veruleika og finna jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Í raun vísar nafnið í það að starfsmenn dafni vel í þessum nýja veruleika. Þannig heldur Microsoft Viva ekki bara utan um verkefni, heldur líka hversu gott næði fólk hefur til að vinna, símenntun og fræðslu sem það sækir og hefur aðgang að og velferð þeirra. Vert er að taka fram að Microsoft Viva er enn í þróun og verða hlutar þess gefnir út síðar á árinu. Það er hins vegar ljóst að hér er á ferðinni byltingarkennd hugsun um það hvernig við lifum og störfum þegar heimsfaraldrinum linnir.

Stærsta tilraun í fjarvinnu í heimi

„Við höfum tekið þátt í stærstu tilraun í fjarvinnu í heimi,“ sagði Satya Nadella, forstjóri Microsoft. Heimsfaraldurinn sem hafi nú staðið yfir í heilt ár hafi komið af stað breytingum sem ekki sé hægt að snúa við. „Í Viva eru samankomnir allir þeir þættir sem starfsmaður þarf til að ná árangri á einum stað í Teams,“ bætir hann við en Viva byggir á fjórum stoðum sem tengjast. Viva Connections, Viva Insights, Viva Learning og Viva Topics.

Fjórar stoðir Viva

Viva Connections; er í raun vinnustaðurinn þinn á stafrænu formi inni á Teams. Þar geta starfsmenn átt í samskiptum, haft aðgang að nauðsynlegum gögnum og unnið í teymisvinnu. Þetta er í raun endurhugsað innra net fyrirtækis. Viva Connections verður tilbúið á fyrrihluta ársins bæði fyrir tölvur og í formi apps.

Viva Insights; er skemmtileg og gagnleg viðbót og er ætlað til að veita bæði stjórnendum og starfsfólki persónulega innsýn í framgang þeirra. En einnig að stuðla að góðu jafnvægi á vinnudeginum. Það er enda mikilvægt að brjóta daginn upp, taka reglulega hlé og hafa gott næði til vinnu og náms. Í þessa stoð er einnig hægt að tengja við önnur forrit til teymisvinnu og endurgjafar. Svo sem Slack, Workday og SAP SuccessFactors. Viva Insights appinu í Teams er hægt að hlaða niður núna til prufu.

Viva Learning; er líklega mikilvægasta og mest spennandi stoðin innan Viva. Stefnt er að því að á svæðinu geti starfsmenn og stjórnendur sótt sér þjálfun og símenntun við hæfi. Þar verður stórt safn fræðsluaðila með framboð á námskeiðum og hagnýtum fræðslumolum sem gagnast starfsfólki. Þarna verða til dæmis námskeið frá Coursera og Edx, til að byrja með en hvert fyrirtæki eða stofnun getur svo aðlagað sitt fræðsluframboð eftir eigin þörfum. Það er óhætt að segja að einmitt í þessari stoð sé að finna nokkuð byltingarkennda hugsun um vinnustaðinn sem skóla.

Viva Topics; er þekkingarmiðuð viðbót sem byggir á gervigreind og er forvitnilegasta útspil Microsoft í Viva. Gervigreindin á að þjóna hverjum og einum starfsmanni, í rauninni mætti líta á þessa stoð sem nokkurs konar velviljaðan samstarfsmann sem viðar að sér efni og finnur áhugaverð málefni, leitar uppi þekkingu og staðreyndir eða bendir á góðar og gagnlegar greinar.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband