IKEA og heitar tilfinningar Íslendinga

Hvers vegna hætti IKEA að prenta vörulista sinn sem hefur komið út frá árinu 1951? Kristján Schram markaðsráðgjafi er gestur í kaffispjallinu í Augnabliki í iðnaði og rýnir í ákvörðun IKEA og þróun í útgáfu markaðsefnis

  • Fjórða iðnbyltingin

„Samband Íslendinga við þennan bækling er öðruvísi en í öðrum löndum, minnir á Macintosh og Prins Póló. Við erum miklu tengdari þessari vöru en aðrir og þetta virðist meira sjokk fyrir okkur,“ segir Kristján Schram markaðsráðgjafi um IKEA vörulistann vinsæla.

Kristján segir ákvörðun IKEA um að hætta að gefa út vörulistann ekki koma á óvart og að Covid-19 hafi líklega átt þátt í henni. „Kóvid er svakaleg utanaðkomandi breyting á líf okkar. Það verður stökkbreyting. Allt í einu erum við hætt að fara í verslanir og kaupa meira á netinu. Við erum bara neydd til þess. Og það verður áhugavert að rannsaka þetta á næsta ári. Hvaða áhrif þetta mun hafa. IKEA er að horfa í þetta, að fólk þarf ekki að koma í þessar stóru verslanir, þeir sjá líklega tækifæri í því að minnka kostnað,“ segir hann þótt hann segir reyndar vekja áhuga sinn af hverju ákvörðunin sé tekin núna svona snögglega en ekki í smærri skrefum. Enda njóti bæklingurinn mikillar hylli og ekki bara hjá sérlunduðum Íslendingum. „Ég sá heimildamynd um IKEA og gerð bæklingsins, hann tekur níu mánuði í framleiðslu, það koma 280 manns að vinnunni og þeir reka stærsta ljósmyndastúdíó í Evrópu. Þarna sáu þeir sér leik á borði í að minnka kostnað.“ Það vakti athygli Kristjáns að IKEA beitti ekki umhverfismálum fyrir sig í ákvörðun sinni. En fyrir þá sem fylgjast vel með umhverfissjónarmiðum í prentútgáfu væri það nærri ómögulegt. Enda hefur IKEA staðið framarlega í umhverfissmálum og stutt dyggilega við stækkun nytjaskóga í útgáfu sinni. Þeir hafi kynnt vel umhverfissjónarmið sín við útgáfu bæklingsins.

Þú setur ekki krónutölu á tilfinningar

En hvaða þýðingu hefur þessi breyting? Kristján segir mikilvægt að hafa í huga hvað fyrirtækið sé að missa við ákvörðun sína. Persónulega og sterka tengingu við viðskiptavini sína. „Fólk er að lesa þessa bæklinga, fletta þeim, skilja þá eftir á kaffiborðinu. Fólk er með vörumerkið í kringum sig. Maður hendir ekkert IKEA bæklingnum! En þessi ákvörðun er því miður hluti af bylgju. Fyrirtæki eru að minnka mikið útgáfu, allar ferðaskrifstofur eru til dæmis hættar að gefa út ferðabæklinga,“ segir Kristján og segir fyrirtæki á móti missa þessi tilfinningalegu tengsl. „Sem markaðsmaður held ég að þetta sé dýrmætt. Þú kaupir ekkert svoleiðis, eða byggir upp slík tengsl á 3-4 árum,“ segir hann og segir engan veginn hægt að verðleggja þessi sterku tengsl. „Þú setur ekki krónutölu á tilfinningar. Það er ekki hægt að reikna þetta út,“ bendir hann á.

„Við tölum oft um þetta sem lím. Eitthvað sem lifir lengi,“ segir Kristján og segir einnig auðvelt fyrir fólk að misreikna þá þörf fólks að ganga um verslun, snerta, pæla. „Maður vill ekki endilega bara horfa á tölvuskjá og tala við botta. Ég mun alltaf ráðleggja mínum kúnnum þetta, að halda í samskipti við kúnnana eins lengi og þeir geta. Ég vona að þetta hafi verið erfið ákvörðun fyrir IKEA.“

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband