Um viðhald og viðgerðir á rafbílum

Hæfni til að sinna viðhaldi rafbíla á öruggan hátt er mikilvæg, segir Sigurður Svavar Indriðason, sviðsstjóri bílgreinasviðs IÐUNNAR fræðsluseturs.

Í byrjun nóvember fengum við vottun frá Institute of the Motor Industry (IMI) í Bretlandi sem IMI fræðsluaðili og eigum nú kost á því að bjóða upp á alþjóðleg vottunarnámskeið sem tengjast umgengni og vinnu við rafbíla. Ferlið hefur verið langt og ítarlegt og ekki gerði COVID ástandið okkur auðveldara fyrir. Allt hafðist þetta þó að lokum.

Fræðsla er mikilvægt öryggisatriði

Á síðustu árum hefur mikið verið rætt og ritað um rafbílavæðingu og orkuskipti og til að mynda hefur núverandi ríkistjórn lýst því yfir í aðgerðaráætlun sinni í loftslagsmálum, að stefnt sé á að banna nýskráningu bensín og dísilbíla eftir árið 2030. Íslendingar hafa sannarlega verið duglegir við að skipta yfir í rafbíla og hafa nýskráningar rafbíla aukist ár frá ári. Allt bendir til þess að sú þróun haldi áfram og aukist jafnvel með meira úrvali nýrra og notaðra rafbíla.

Með tilkomu rafbíla opnast nýr heimur fyrir alla sem sinna viðhaldi og viðgerðum bifreiða og mikilvægt að fagfólk í bíliðnaði hafi tilskylda hæfni og leikni til að sinna vinnu sinni á öruggan og faglegan hátt. Þetta á ekki síst við aðila sem sinna útköllum og eftirmálum árekstra þar sem rafbíll á í hlut, s.s. lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutningafólk og einnig starfsfólk dráttaþjónustu fyrirtækja, tryggingafélaga og partasala.

Undanfarin ár hefur IÐAN boðið upp á rafbílanámskeið í samstarfi við þau umboð sem flytja inn rafbíla. Á næstunni munu fjögur ný og alþjóðlega vottuð rafbílanámskeið bætast við námsframboðið. Þróunin er nefnilega slík að nú er þörf á vottuðum námskeiðum fyrir fagfólk í bíliðnaði,  námskeiðum sem jafnframt nýtast til að skilgreina þá þekkingu og hæfni sem er nauðsynleg til að vinna við rafbíla við ólíkar aðstæður.

Hafa samband

Hafðu samband

Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband