Samfélagslega þenkjandi húsasmiður í ævintýrum í Evrópu

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir er samfélagsþenkjandi húsasmiður úr Hlíðunum. Þrátt fyrir að nú sé lítið um ferðalög vegna Covid-19 er hægt að láta sig dreyma um framtíðarævintýri.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir
Ásrún Mjöll Stefánsdóttir

    Ásrún Mjöll hefur farið tvisvar til Evrópu með stuðningi Erasmus styrkja sem IÐAN fræðslusetur veitir iðnnemum og nýsveinum. Ásrún Mjöll er 26 ára húsasmiður sem tekur að sér samfélagsleg ábyrg smíðaverkefni. Hún stundar mannfræði við Háskóla Íslands í fjarnámi og átti pantaða ferð til Danmerkur í haust með Norrænu þar sem hún ætlaði að þræða sig í gegnum Evrópu á leið sinni til Tyrklands. En svo kom Covid-19.

    Síðan árið 2006 hefur IÐAN hvatt og stutt iðnnema og nýsveina að fara á vit ævintýra í Evrópu. Ásrún Mjöll er ein þeirra. Þetta hafði Ásrún að segja um sitt Erasmus ævintýri.

    Kom heim með appelsínugula Olympia ritvél og japanska sög

    Ásrún fór til Danmerkur sem iðnnemi og til Noregs sem nýsveinn. Að vera iðnnemi í Danmörku var lærdómsrík upplifun. Hún fann greinlega fyrir því að vera ,,neminn“. Stuttar vinnulotur, skýr verkaskipting og ekki mátti ,,vasast í neinu“ sem var ekki búið að undirbúa vel og vandlega. ,,Stemmning var þannig að maður gerði ekkert sem maður kunni ekki,“ segir Ásrún.

    Ásrún er sérlega áhugamanneskja um gamlar ritvélar og fann hún eina geggjaða ritvél í Danmörku sem hún notar við skriftir í dag. Ævintýrið hélt áfram eftir útskrift. Að þessu sinni í Norður Noregi þar sem Ásrún leiddi hóp smiða í ýmsum samfélagslegum verkefnum. Þar var hún í ábyrgðarhlutverki og kom sér þá vel að hafa reynslu sem íslenskur húsasmiður, því hér á landi þarf oft að ,,redda sér“. Frá Noregi kom hún heim með forláta japanska sög sem hefur aðra eiginleika en vestrænar sagir, hún sagar þegar ,,þú togar“ öfugt við vestrænar sagir.

    Samfélag sem sýnir ábyrgð

    Fyrirtæki sem Ásrún vann hjá í Danmörku og Noregi lögðu áherslu á jöfn laun, samfélagslega ábyrgð og vellíðan í starfi. Þessi lærdómur hefur haft áhrif á Ásrúnu bæði persónulega og sem fagmanneskju. Hún velur störf sín að kostgæfni og reynir að hafa áhrif á samfélagið til heilla.

    Að vera utangarðs er reynsla

    Að vera utanaðkomandi hafði áhrif á Ásrúnu. Þótt að Danmörk og Noregur teljist varla framandi í augum Íslendinga þá upplifði hún sig stundum utangarðs. Að vera ein og leggja á sig til að ,,finna út úr hlutunum“ var krefjandi. Svona upplifun eflir og á sama tíma gerir það manni kleift að setja sig í spor annarra sem eru í svipaðri stöðu.

    Sólrík og dýrmæt reynsla

    Þótt að þetta hafi verið krefjandi þá var var reynslan ótrúlega lærdómsrík og skemmtileg. Tækifærið gaf henni færi á að kynnast ólíku fólki og faglegt tengslanet hennar stækkaði. Upplifunin var að hennar sögn ,,sólrík og dýrmæt“.

    Helen Gray Williams þróunarstjóri IÐUNNAR fræðsluseturs ræddi við Ásrúnu Mjöll

    Hafa samband

    Hafðu samband

    Netspjall Fljótleg leið til að hafa samband